Domaine Lafage Nicolas Grenache Noir Vieilles Vignes 2022

Languedoc-Roussillon í suður-Frakklandi er eitt stærsta vínræktarhérað heims – bæði að flatarmáli og í framleiðslu. Vínekrur í Languedoc-Roussillon ná yfir 280.000 hektara, eða um þrefalt Reykjanes. Vínframleiðsla Languedoc-Roussillon er um þriðjungur af allri vínframleiðslu Frakklands, og er álíka mikil og öll vínframleiðsla Ástralíu. Í Languedoc-Roussillon eru 36 skilgreind AOC – Appellation d’Origine Contrôlée – en auk þess eru um 60 skilgreind IPG – Indication Géographique Protégée. AOC fylgja strangari reglur en gilda um IGP, og vínbændur sem rækta sínar þrúgur innan skilgreindra AOC-svæða geta valið að flokka vín skv. IGP-reglunum ef þeir vilja prófa nýjungar í víngerð eða nota aðrar þrúgur en AOC leyfir.

Côtes Catalanes er mikilvægt IGP-svæði innan Languedoc-Roussillon. Það nær aðeins út fyrir mörk Côtes du Roussillon AOC og Côtes du Roussillon Villages AOC, auk þess sem það leyfir líka fleiri þrúgur.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Lafage sem er staðsett í Roussillon, nánar tiltekið við bæinn Perpignan. Hjónin Jean-Marc og Éliane Lafage þykja með fremstu víngerðarmönnum í Roussillon og vínin þeirra hafa vakið verðskuldaða athygli víða um heim.

Vín dagsins er gert úr þrúgunni Grenache Noir sem er yfir 65 ára gamall (Vieilles Vignes – gamall vínviður). Að lokinni gerjun er hluti vínsins settur í notaðar eikartunnur frá Búrgúnd, en stærstur hlutinn hvílir áfram í stáltönkum. Eftir 10 mánaða hvíld er vínið blandað og sett á flöskur (geymslutíminn getur verið mismunandi milli árganga).

Domaine Lafage Nicolas Grenache Noir Vieilles Vignes 2022 hefur miðlungsdjúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu er þægileg angan af sólberjum og plómum, ásamt súkkulaði, hindberjum, lakkrís, steinefnum og leðri. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, miðlungstannín og ríflega miðlungs fyllingu. Eftirbragðið er mjúkt, með góðan ávöxtu og heldur sér nokkuð lengi. 91 stig. Frábær kaup (2.998 kr). Njótið með nautakjöti, lambi og pottréttum. Vínið hentar ekki til langrar geymslu. Sýnishorn frá innflytjanda.

James Suckling gefur þessu víni 91 stig. Notendur Vivino gefa 3,8 stjörnur (53 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker hefur ekki dæmt þennan árgang en fyrri árgangar hafa allir fengið a.m.k. 90 stig.

Domaine Lafage Nicolas Grenache Noir Vieilles Vignes 2022
Frábær kaup
Domaine Lafage Nicolas Grenache Noir Vieilles Vignes 2022 fer vel með nautakjöti, lambi og pottréttum.
4.5
91 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook