Muga Rioja Reserva 2020

Flest íslenskir vínáhugamenn kannast án efa við Reserva-rauðvínið frá Bodegas Muga. Þetta vín hefur verið eitt vinsælasta spænska rauðvínið á Íslandi í mörg ár og selst í bílförmum. Víngerðin rekur sögu sína aftur til ársins 1932, stofnað af Isaac Muga og Aurora Caño í bænum Haro, sem er hjarta Rioja Alta svæðisins. Muga er í dag eitt af stærstu vínhúsum Rioja og vínekrurnar ná yfir 475 hektara lands. Á hverju ári gerir Muga rúmlega 2 milljónir flaskna og þar af tæplega 950.000 flöskur af Rioja Reserva rauðvíninu.

Eins og áður segir eru Íslendingar mjög hrifnir af Muga Reserva, enda full ástæða til. Samkvæmt sölutölum vínbúðanna seldust rúmlega 14.200 flöskur af þessu víni í Vínbúðunum í fyrra.

Muga er eitt af örfáum vínhúsum á Spáni sem smíðar sínar eigin eikartunnur. Muga notar bæði ameríska og franska eik fyrir rauðvínin og einnig ungverska eik fyrir hvítvín.

Vín dagsins

Vínið er að mestu gert úr Tempranillo-þrúgunni, en þarna er líka að finna Garnacha, Mazuelo og Graciano. Vínið er gerjað í stórum eikarámum en að því loknu er það sett í eikartunnur (80% frönsk eik, 20% amerísk eik) þar sem það fær að hvíla í 2 ár. Vínið er þá hreinsað með eggjahvítum áður en lokablöndun fer fram og vínið sett á flöskur. Eftir átöppun hvílir vínið í 12 mánuði til viðbótar áður en það fer í sölu.

Bodegas Muga Rioja Reserva 2020 hefur djúpan kirsuberjanrauðan lit, unglegt en þó er kominn örlítill þroski í litinn. Í nefinu eru kirsuber, plómur, eik, vanilla, leður, dökkt súkkulaði, tóbak, sólber og kaffi. Í munni er vínið þurrt, með þétt en nokkuð mjúk tannín, ríflega miðlungs sýru og góða fyllingu. Eftirbragðið er þétt og heldur sér nokkuð vel. 91 stig. Góð kaup (4.699 kr). Vel gert vín sem fer vel með nauti, lambi, villibráð og góðri spænskri skinku. Vínið er tilbúið til neyslu núna en þolir vel 3-4 ára geymslu.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (2.014 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur víninu 93 stig og það gerir Tim Atkin MW einnig. Wine Spectator gefur 91 stig.

Muga Rioja Reserva 2020
Góð kaup
Bodegas Muga Rioja Reserva 2020 er vel gert vín sem fer vel með nauti, lambi, villibráð og góðri spænskri skinku.
4.5
91 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook