Ég er ekki viss um margir íslenskir neytendur þekki þrúguna Barbera, enda hefur hún lengi staðið í skugga Nebbiolo í Piemonte-héraði á Ítalíu. Nebbiolo er líka lang mest ræktaða þrúgan í Piemonte-héraði – um 60% af ræktuðum þrúgum á meðan Barbera er rétt tæplega 10% af heildaruppskerunni. Barbera er þó ræktuð víðar á Ítalíu og hana má finna í flestum vínræktarhéruðum landsins. Þá hefur þrúgan líka átt góðu gengi að fagna í Kaliforníu, einkum hjá vínbændum sem rekja ættir sínar til Ítalíu.
Elstu heimildir um Barbera eru líklega frá 13. öld. Þrúgan hefur lengi verið hornsteinn vínræktar í þorpunum Asti og Alba. Barbera er auðveld í ræktun og þrúgurnar þroskast nokkuð snemma. Bændur hafa því yfirleitt sett bestu vínekrur sínar undir Nebbiolo, sem er kröfuharðari þrúga, en Barbera verið ræktuð á vínekrum sem þykja ekki jafn góðar. Engu að síður hafa bændur geta treyst á góða uppskeru og yfirleitt náð að ljúka henni áður en Nebbiolo er tilbúin. Það er þó heilmikil vinna sem fylgir því að rækta Barbera, því vínviðurinn vex mjög vel og honum þarf að halda í skefjum, því annars verða þrúgurnar bragðminni og vínin sömuleiðis. Barbera er mjög sýrurík og heldur sýrunni vel, jafnvel í heitu loftslagi.
Barbera gefur af sér rauðvín sem eru fersk og ávaxtarík, sem gerir þau einstaklega fjölhæf til matarpörunar. Vínin frá Alba þykja þó aðeins kröftugri en þau frá Asti og Monferrato (þessi þrjú þorp eru þekktustu Barbera-þorpin á Ítalíu). Vínin hafa yfirleitt áberandi ávaxtatóna – kirsuber, hindber og plómur – en oft má einnig finna lakkrís, vanillu og krydd ef vínið hefur haft viðkomu í eikartunnum. Hátt sýruinnihald gerir vínið tilvaldið með réttum sem innihalda tómata (pizzur, pastaréttir) og pylsum hvers konar.
Vín dagsins
Vínhús Massolino var stofnað árið 1896 af Giovanni Massolino og hefur alla tíð verið í eigu Massolino-fjölskyldunnar. Massolino er þekktast fyrir Barolo-vínin sín – Margheria, Parafada og Vigna Rionda Riserva. Massolino gerir líka Nebbiolo, Dolcetto og hvítvín (Riesling, Chardonnay og Moscato). Vín dagins er hreint Barbera sem er gerjað á stáltönkum og fer á flöskur fljótlega eftir að gerjun lýkur, án viðkomu í eikartunnum.
Massolino Barbera d’Alba 2023 hefur kirsuberjarauðan lit og þægilega angan af rauðum kirsuberjum, hindberjum, kryddum, plómum, sólberjum og vanillu. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með miðlungs tannín og í góðu jafnvægi. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel og þar má greina kirsuber, plómur, smá leður, bláber og hindber. 90 stig. Mjög góð kaup (3.999 kr). Steinliggur með ragú Bolognese (pasta, lasagna), léttari kjötréttum og pepperoni-pizzum. Tilbúið til neyslu en þolir eflaust 3-4 ár til viðbótar í flöskunni, þó ekki mikið lengur.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (259 umsagnir þegar þetta er skrifað). Eymar Plédel gefur víninu 88 stig°