Jólavínin 2024

Jólin eru handan við hornið og ekki seinna vænna en að finna vínið með jólamatnum. Það eru væntanlega fáir sem eru enn að velta fyrir sér hvað þeir eigi að borða um jólin, enda flestir Íslendingar ákaflega íhaldssamir þegar jólamaturinn er annars vegar. Jólavínið er hins vegar ekki alltaf ákveðið fyrr en á síðustu stundu og oft erfitt að para vín við íslenskar matarvenjur. Ef þið ætlið á annað borð að hafa vín með matnum mæli ég með að þið veljið eitthvað gott, því flest leggjum við nokkra vinnu og metnað í jólamatinn og þá stingur í stúf ef jólavínið er eitthvað glundur. Hér eru nokkrar tillögur að vínpörun með jólasteikinni.

Hangikjöt

Það er erfitt að velja gott vín með reyktum og söltum mat, líkt og íslenska hangikjötinu. Flestum finnst gott að fá sér gos með hangikjöti, enda vinnur kolsýran vel á fitunni og saltinu. Ef þið ætlið að fá ykkur vín með hangikjötin þá mæli ég með að þið prófið freyðivín með því! Ef ekki þá ættuð þið að horfa til Alsace og fá ykkur gott hvítvín.

  • Willm Pinot Gris Grand Cru Kirchberg de Barr (4.499 kr)
  • Mure Cremand d’Alsace Prestige (3.999 kr)
  • Antica Fratta Essence Brut Millesimato (5.299 kr)
  • Andre Chemin Little Dark Mountain Brut (6.199 kr)

Rjúpa

Rjúpan er ákaflega bragðmikil og kallar á kröftugt, vel gert rauðvín. Hér er rétt að horfa til Rónardals og fá sér gott Syrah, jafnvel Chateauneuf-du-Pape.

  • E. Guigal Cote-Rotie Brune et Blonde (11.499 kr)
  • Clos de L’Oratoire Chateauneuf-du-Pape (6.999 kr)
  • Gabriel Meffre Saint-Joseph „Saint-Étienne“ (4.399 kr)
  • Peter Lehmann The Barossan Shiraz (3.798 kr)

Hamborgarhryggur

Hér gildir svipað lögmál og með hangikjötið. Hamborgarhryggurinn er þó ekki jafn reyktur og saltur og við höfum því meira svigrúm. Hér held ég að gott freyðivín sé aftur besti kosturinn, sömuleiðis hvítvín frá Alsace. Ef þið viljið rauðvín þá mæli ég með einhverju sem er ekki of tannískt, s.s. Pinot Noir, gjarnan frá Nýja-heiminum því þau vín eru oft aðeins kryddaðri og bragðmeiri en þau frönsku.

  • Bread & Butter Pinot Noir (3.499 kr)
  • Calera Pinot Noir (5.677 kr)
  • Willm Pinot Gris Grand Cru Kirchberg de Barr (4.499 kr)
  • Mure Cremand d’Alsace Prestige (3.999 kr)

Naut Wellington

Wellington-steikinni hæfir gott rauðvín, t.d. frá Rioja, Ribera del Duero, Bordeux eða Argentínu.

  • Áster Crianza (4.299 kr)
  • Dominio de Atauta (4.998 kr)
  • Muga Reserva (4.699 kr)
  • Brio de Cantenac Brown (6.899 kr)

Hreindýr

Hreindýrið er bragðmikið og þarf öflugt vín sem ræður við bragðið, en jafnfram þarf það að vera fágað því ekki viljum að vínið yfirgnæfi matinn. Hreindýri hæfir gott rauðvín frá Bordeux eða Toscana, en einnig gott Cabernet Sauvignon frá Kaliforníu.

  • Chateau Timberlay Cuvee Marie Paule Prestige (4.899 kr)
  • Banfi Brunello di Montalcino (7.890 kr)
  • Isole e Olena Cepparello (15.690 kr)
  • Hess Collection Allomi Cabernet sauvignon (6.499 kr)

Önd/Gæs

Alifuglar eru oft nokkuð feitir, og þó að fitan renni að mestu af þeim við eldamennskuna þá viljum við vín sem inniheldur góða sýru og tannín, þó ekki of kröftug vín sem gætu yfirgnæft kjötið. Vandað Pinot Noir, Bordaux eða jafnvel Barolo fer yfirleitt vel með þessum fuglum. Þá getur gott hvítvín á borð við Riesling frá Alsace einnig farið vel með feitum alifuglum.

  • Willm Riesling Grand Cru Kirchberg de Barr (4.499 kr)
  • Louis Jadot Couvent des Jacobins Pinot Noir (4.099 kr)
  • Aurelien Verdet Fixin (6.500 kr hjá Santé)
  • Enzo Bartoli (5.199 kr)

Kalkúni

Það er úr ýmsu að velja þegar kalkúni er á borðstólum, Kjötið er til þess að gera hlutlaust á bragðið og hér skiptir meðlætið meira máli en með mörgum öðrum réttum. Við getum valið okkur gott hvítvín, létt rauðvín eða gott freyðivín.

  • Camille Giroud Bourgogne Hautes Cotes de Beaune Au Crètot (5.700 kr hjá Santé)
  • Baron de Ley Tres Vinas Blanco Reserva (3.599 kr)
  • Ruffino Riserva Ducale Chianti Classico (4.199 kr)
  • Raventos i Blanc de la Finca Brut Nature (4.990 kr)

Lamb

Hér getur eldamennskan haft mikið að segja um það hvaða vín henti matnum. Eldað á „gamla mátann“ (vel steikt alveg í gegn) þarf vínið kröftugara vín á borð við ungt Ribera del Duero eða Chateauneuf-du-Pape. Ef kjötið er minna eldað má vínið vera meira þroskað, t.d Bordeaux eða Gran Reserva frá Rioja.

  • Imperial Gran Reserva (7.499 kr)
  • Áster Crianza (4.299 kr)
  • Les Tourelles de Longueville (8.698 kr)
  • E.Guigal Chateauneuf-du-Pape (7.399 kr)

Hnetusteik

Það er í raun ekkert flóknara að velja vín með hnetusteik en öðrum steikum. Cabernet Sauvignon, Syrah og Tempranillo geta öll tekist á við hnetusteikina, en ef þið viljið hvítt með þá skulið þið velja gott Chardonnay eða Viognier (sem því miður eru afar fágæt í Vínbúðunum en það er meira úrval hjá Santé).

  • Chateau Haut-Simard Saint-Emilion Grand Cru (5.800 kr hjá Santé)
  • Clos de L’Oratoire Chateauneuf-du-Pape (6.999 kr)
  • Áster Crianza (4.299 kr)
  • Chateau Fuisse Pouilly Fuisse Tete de Cuvée (6.299 kr)

Fiskur/Skelfiskur

Hér viljum við fá gott hvítvín og þá kemur Chardonnay fyrst til greina. Gott, þurrt Riesling getur líka farið vel með fiskinum og ekki má gleyma freyðivíninu! Þá er líka gott að hafa í huga að Albariño er fullkomið sjávarréttavín.

  • La Marimorena Albariño (4.699 kr)
  • Cloudy Bay Chardonnay (5.499 kr)
  • Hervieux-Dumez Reserve Brut (6.998 kr)
  • Louis Jadot Chablis (4.299 kr)

Vinir á Facebook