Þó að Cabernet Sauvignon sé (að mínu mati) einna best ef það kemur frá vinstri bakkanum í Bordeaux, þá verður því ekki neitað að þrúgan þrífst líka ákaflega vel í Kaliforníu (og víðar). Í Bordeaux kemur nafn þrúgunnar auðvitað ekki fram á flöskumiðanum, en yfirleitt er um að ræða blöndur nokkura þrúga (þó sums staðar séu vínin hrein einnar þrúgu vín). Í öðrum vínhéruðum gilda mismunandi reglur um hlutföll og blöndur, en yfirleitt þarf ekki að tilgreina aðrar þrúgur ef ráðandi þrúgan er 75-80% af lokablöndunni.
Tilgangur þess að blanda mismunandi þrúgum saman er að þrúgurnar leggi fram mismunandi eiginleika og bæti þannig heildarútkomuna. Stundum er hlutur sumra þrúga jafnvel ekki nema 1-2% (algengt með t.d. Petit Verdot-þrúguna). Mér sýnist að sífellt fleiri vínhús í Kaliforníu séu að taka upp franska siði og bæta frönskum þrúgum í Cabernet Sauvignon-vínin sín – það á a.m.k. við um vínið sem hér er fjallað um.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Daou-bræðrunum Georges og Daniel, sem ég fjallaði aðeins um hér. Samsetning þessa víns virðist aðeins á reiki miðað við það sem ég hef fundið en stíllinn er greinilega franskur. Að stærstum hluta er það gert úr Cabernet Sauvignon auk þess að innihalda Petit Verdot, Merlot og Cabernet Franc – svipað og sjá má á vinstri bakkanum í Bordeaux. Þá var vínið látið hvíla í 10 mánuði á frönskum eikartunnum (helmingurinn nýjar tunnur). Áfengismagnið er 14% sem er óvenjulágt fyrir Cabernet Sauvignon frá jafn heitu svæði og Paso Robles.
DAOU Cabernet Sauvignon Paso Robles 2021 hefur djúpan rústrauðan lit og þéttan ilm af sólberjasultu, vanillu, svörtum plómum, súkkulaði, leðri, svörtum pipar, kirsuberjum, krækiberjum og smá lakkrís. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru og góð tannín. Vínið er í óvenjugóðu jafnvægi fyrir svona ungt Cabernet Sauvignon, og í eftirbragðinu má finna sömu sólberjasultuna, plómurnar, vanillu, súkkulaði, leður, kirsuber, kaffi og smá eik. 90 stig. Ágæt kaup (4.888 kr). Þetta vín biður um alvörusteik – naut eða villibráð! Vínið er tilbúið til neyslu núna en þolir vel 3-5 ára geymslu.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (6.683 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur því 91 stig.