Árið 1880 flutti Joseph Drouhin frá Chablis til Beaune í Bourgogne og keypti þar verslunarréttindi vínhúss sem var stofnað árið 1756. Reksturinn gekk ágætlega og Drouhin keypti eigin vínekrur til víngerðar. Með tímanum hefur vínekrunum fjölgað og framleiðslan aukist. Maurice Drouhin tók við af Joseph föður sínum, og árið 1957 tók Robert við af Maurice.
Robert Drouhin keypti fleiri vínekrur, m.a. í Chablis. Líkt og svo margir aðrir Frakkar, þá varð Robert fyrir áfalli þegar amerísk vín sigruðu þau frönsku í vínkeppninni í París árið 1976. Eitt af frönsku vínunum í keppninni var nefnilega frá Joseph Drouhin! Robert hafði reyndar komið til Oregon mörgum árum áður, en þá voru nær engar vínekrur í Oregon.
Veronique, dóttir Roberts, lauk námi í vínfræðum og fór til Oregon 1986 að aðstoða nokkra vínbændur þar. Henni tókst svo vel upp að árið eftir keypti Robert Drouhin landsvæði í Dundee Hills í Oregon. Þar voru engar vínekrur en Veronique fékk það hlutverk að hefja þar vínrækt. Domaine Drouhin verður svo formlega til árið 1988. Árið 2013 keypti Domaine Drouhin Roserock-vínekruna í Eola-Amity Hills, alls um 112 hektarar.
Vínrækt í Eola-Amity Hills hóft árið 1971 og svæðið fékk eigin AVA-skilgreiningu árið 2006. Þar eru nú um 25 starfandi vínhús. Vínekrurnar liggja við vesturbakka Willamette-árinnar og það er skilgreint að allar vínekrur þurfa að vera í a.m.k. 200 feta hæð yfir sjávarmáli. Jarðvegurinn á þessum slóðum er nokkuð frábrugðinn því sem er að finna á öðrum vínræktarsvæðum í nágrenninu. Þarna er gamalt hraun og næringarsnauður, járnríkur jarðvegur. Vínviðurinn þarf að erfiða nokkuð til að gefa af sér þrúgur, en þannig fást einmitt bestu þrúgurnar. Þarna eru sumrin hlý, dagarnir nokkuð heitir en næturnar svalar, og þannig ná þrúgurnar að halda í mikilvæga sýruna.
Vín dagsins
Eins og áður segir eignaðist Doumain Drouhin landareignina Roserock árið 2013 (Roserock er oft stafsett RoseRock). Þar eru um 45 hektarar af Pinot Noir og 4 hektarar af Chardonnay. Vínviðurinn var að mestu gróðursettur árið 2003. Fyrst um sinn voru þrúgurnar seldar til annarra vínhúsa en nú fara þrúgurnar í vín sem gerðar eru undir nafninu Roserock – tvö hvítvín og tvö rauðvín.
Vín dagsins er hreint Chardonnay sem er að hluta til gerjað í stáltönkum og að hluta í eikartunnum.
Roserock Chardonnay 2018 hefur fallegan fölgulan lit og frísklegan ilm af sítrónum, eplum, smjöri, steinefnum, perum, apríkósum, sumarblómum og smá eik. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt og með miðlungs fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel og er í góðu jafnvægi. 93 stig. Frábær kaup (5.950 kr). Vínið er dásamlegt eitt og sér en fer líka vel með skelfiski, fiskréttum, ljósu fuglakjöt og hvítmygluostum.
Wine Enthusiast gefur þessu víni 93 stig og Wine Spectator gefur því 91 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (337 umsagnir þegar þetta er skrifað).