Líkt og í svo mörgum vínræktarhéruðum suður-Evrópu þá nær saga vínræktarinnar a.m.k. aftur til tíma Rómverja, þó líklegt sé að ræktun vínviðs hafi verið hafin áður en Rómverjar mættu á svæðið. Rómverjarnir fóru og Márar komu í þeirra stað, svo fór Márarnir og kristnir menn náðu yfirráðum á Spáni – alltaf var samt ræktaður vínviður í Navarra. Pílagrímsferðir kaþólskra um Jakobsstíginn höfðu góð áhrif á viðskiptin í Navarra og á tímabili voru sett lög til að takmarka vínræktun og bændur skyldaðir til að rækta líka korn til að fæða íbúana! Þegar svo rótarlúsin lagði vínekrur Frakklands í rúst þá blómstraði víngerð í Navarra – allt þar til rótarlúsin eyðlagði einnig þeirra vínekrur.
Navarra var lengst af þekkt fyrir rósavín úr Garnacha-þrúgunni og Garnacha var lengi mest ræktaða þrúgan á Spáni. Í seinni tíð hafa rauðvín og hvítvín rutt sér meira til rúms, einkum rauðvín úr Tempranillo-þrúgunni. Garnacha er þó enn mest ræktaða þrúgan í Navarra.
Vín dagsins
Chivite er eitt þekktasta og virtasta vínhús Navarra-héraðs á Spáni. Saga víngerðarinnar spannar yfir 11 kynslóðir, allt frá árinu 1647, og hefur Chivite fjölskyldan haldið við hefðbundnum vinnubrögðum á sama tíma og hún hefur verið í fararbroddi við nýjungar í vínframleiðslu.
Vín dagsins er hreint Garnacha, sem að lokinni gerjun er lagt í franskar eikartunnur og fær að hvíla þar í 12 mánuði.
Chivite Finca Le Gardeta Single Vineyard Garnacha 2019 hefur djúpan rústrauðan lit, með angan af brómberjum, bláberjum, svörtum kirsuberjum, svörtum plómum, vanillu, sedrusvið, sultu, eik, svartan pipar og vindla. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með miðlungs tannín og góða fyllingu. Vínið er í góðu jafnvægi og heldur sér vel. 90 stig. Mjög góð kaup (3.777 kr). Njótið með grillaðri steik – lambi, nauti eða grís.
Decanter gefur þessu víni 92, líkt og Guia Peñin, James Suckling gefur því 90 stig og notendur Vivino gefa því 3,9 stjörnur (61 umsögn þegar þetta er skrifað).