Castillo Perelada Finca La Garriga Emporda 2018

Fyrir viku síðan fjallaði ég um Finca Malaveïna – einnar vínekru vín frá Castilla Perelada í Emporda-héraði í Katalóníu. Vínið sem hér er fjallað um er einnig einnar vínekru vín, þar sem allar þrúgurnar koma af sömu vínekrunni sem kallast La Garriga. Þarna eru elstu vínviðir Castillo Perelada – vínviðurinn er meira en 50 ára gamall, en vínviður á þeim aldri gefur yfirleitt af sér mjög góðar þrúgur, þó búast megi við að afköstin fari minnkandi næsta áratuginn. Jarðvegurinn í La Garriga er blanda af leir, sandi og möl, en þarna eru líka gömul setlög sem gefa næringu og binda vatn.

Á La Garriga vex aðeins vínviður sem ber Samsó-þrúguna. Samsó er betur þekkt undir nafninu Carignan. Þessi þrúga þrífst vel í þurrum og steinefnaríkum jarðvegi líkt og finna má í La Garriga og hún kann vel við sig í heitu loftslagi. Samsó getur þó verið erfið í ræktun þar sem hún þroskast seint og er viðkvæm fyrir sjúkdóm (hentar því síður þar sem má búast við meiri úrkomu).

Vín dagsins

Vín dagsins er 100% Samsó, sem að lokinni gerjun var sett á amerískar eikartunnur og látið hvíla þar í 19 mánuði. Eftir átöppun fékk vínið svo að hvíla í minnst 18 mánuði á flöskum áður en það fór frá vínhúsinu.

Castillo Perelada Finca La Garriga Emporda 2018 hefur dökkan rúbínrauðan lit og er farið að sýna smá þroska. Ilmurinn er nokkuð þéttur og þar má finna sólber, kakó, kókos, brómber, kirsuber, plómur, vanillu, kaffi, leður, eik og örlítinn lakkrís. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt, með góða fyllingu og ríflega miðlungs tannín. Vínið er í góðu jafnvægi, með þéttu og góðu eftirbragði sem heldur sér nokkuð lengi. 92 stig. Góð kaup (5.555 kr). Þetta vín fer vel með með grilluðu nautakjöti, lambakjöti og villibráð, en einnig góðri skinku og hörðum ostum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (135 umsagnir þegar þetta er skrifað). Tim Atkin MW gefur þessu víni 90 stig.

Castillo Perelada Finca La Garriga Emporda 2018
Góð kaup
Castillo Perelada Finca La Garriga Emporda 2018 fer vel með með grilluðu nautakjöti, lambakjöti og villibráð, en einnig góðri skinku og hörðum ostum.
4.5
92 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook