Pessimist by DAOU 2021

Paso Robles , staðsett í miðri Kaliforníu, er eitt merkasta vínræktarsvæði Bandaríkjanna. Paso Robles, sem þýðir „Eikarstigarnir“ á spænsku, býður upp á fjölbreytt landslag og loftslag sem gerir það ákjósanlegt til vínræktar.   Saga Paso Robles sem vínræktarsvæðis spannar yfir 200 ár. Fyrstu víngarðarnir voru gróðursettir á þessu svæði í byrjun 19. aldar af spænskum trúboðum. Þeir notuðu vínvið af tegundinni *Mission*, sem var vinsæl í trúboðsstarfi vegna þess að hún var auðveld í ræktun og gaf sæmileg vín. Á 20. öld fór vínrækt að þróast hraðar, en Paso Robles AVA var formlega stofnað árið 1983.

Fyrstu áratugir AVA-svæðisins voru tiltölulega hægir hvað varðar þróun, þar til í kringum aldamótin 2000, þegar alþjóðleg viðurkenning fyrir gæði Paso Robles-vína jókst verulega. Svæðið hefur síðan orðið þekkt fyrir nýsköpun í vínframleiðslu, tilraunakenndar blöndur og framúrskarandi gæði.

Paso Robles státar af fjölbreyttu loftslagi sem spannar frá Miðjarðarhafsloftslagi til heitara, þurrara veðurfars sem er dæmigert fyrir innanlands Kaliforníu. Svæðið nýtur þess að vera staðsett nálægt Kyrrahafinu, sem veitir kælandi hafgolu og mikla daglega hitasveiflu. Hitamunurinn getur náð allt að 40 gráðum á einum degi, sem gerir það að verkum að þrúgur fá bæði þroska og næga sýru, sem stuðlar að jafnvægi í vínunum.

Jarðvegur Paso Robles er ekki síður fjölbreyttur. Þar má finna yfir 60 mismunandi jarðvegsgerðir, frá kalkríkum leirkenndum jarðvegi til sand- og malarslétta. Kalkríkir jarðvegir, líkir þeim sem finnast í suðurhluta Frakklands, eru sérstaklega eftirsóttir fyrir vínframleiðslu, þar sem þeir gefa vínum bæði dýpt og karakter.

Paso Robles er einkum þekkt fyrir rauðvín. Cabernet Sauvignon er ríkjandi þrúga á svæðinu en aðrar vinsælar rauðvínsþrúgur eru Syrah, Zinfandel og blöndur af suður-frönskum þrúgum eins og Grenache og Mourvèdre. Þessar blöndur minna oft á þau vín sem framleidd eru í Rhône-dalnum í Frakklandi, en þau hafa þó eigin sérkenni Paso Robles. Hvítvín eru einnig framleidd á svæðinu, þar á meðal úr þrúgum eins og Chardonnay, Viognier og Roussanne.

Árið 2014 var Paso Robles AVA skipt upp í 11 undirsvæði til að ná betur utan um fjölbreytileika þess. Þessi undirsvæði, eins og Adelaida District, Willow Creek District og Templeton Gap, bjóða upp á mismunandi skilyrði fyrir vínrækt og gera neytendum kleift að þekkja betur uppruna og karakter vínanna. Til dæmis nýtur Templeton Gap sérstakrar hafgolu sem kælir víngarðana og bætir við ferskleika í vínunum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur úr smiðju bræðranna George og Daniel Daou. Þeir stofnuðu vínhús sitt árið 2007 þegar eignuðust hluta af Hoffman Mountain Ranch í Adelaida District, sem var fyrsta nútímalega vínhúsið sem var stofnað í Paso Robles eftir að Bannárunum lauk. Árið 2012 keyptu bræðurnir Hoffman Mountain Ranch að fullu og vínekrurnar ná nú yfir 86 hektara.

Vín Daou eru í 3 vörulínum – grunnlínunni Estate Collection, ásamt Reserve og by Daou. Vín dagins tilheyrir þeirri síðastnefndu (sum vínin í þessari línu eru reyndar nefnd DAOU og önnur by DAOU). Vínið sem hér um ræðir hefur nokkuð óvenjulega samsetningu, en það er gert úr þrúgunum Petite Sirah, Zinfandel, Syrah og Lagrein. Að lokinni gerjun var vínið hvílt í 10 mánuði á tunnum úr franskri eik (helmingurinn nýjar tunnur).

Pessimist by DAOU 2021 hefur dökkrauðan lit og þungan ilm af sultuðum kirsuberjum, plómum, sólberjum, brómberjum, lakkrís og vott af eik. Í munni vottar fyrir örlítilli sætu, það er góð sýra, tannínin eru þétt en nokkuð mjúk og fyllingin góð. 90 stig. Eftirbragðið er kröftugt og heldur sér vel. Frábær kaup fyrir þá sem elska ofþroskuð sultuvín (4.567 kr). Prófið með hamborgurum, svínarifjum, pottréttum og piparsteik. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (1398 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur því 93 stig

Pessimist by DAOU 2021
Góð kaup
Pessimist by DAOU 2021 er frábær kaup fyrir þá sem elska ofþroskuð sultuvín. Prófið með hamborgurum, svínarifjum, pottréttum og piparsteik.
4
90 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook