Castillo Perelada Finca Malaveïna Emporda 2020

Emporda á sér langa víngerðarsögu, líkt og flest vínhéruð Spánar. Emporda er lítið hérað í norðaustur horni Katalóníu og liggur að landamærum Frakklands (hinum megin við landamærin eru frönsku vínhéruðin Banyuls og Roussillon), Lengst af var héraðið þekkt fyrir sterk sætvín, en á 20. öldinni fór áherslan því miður að snúast meira um magn en gæði. Þetta hefur þó sem betur fer breyst til hins betra og nú koma prýðisgóð vín frá Emporda, mörg hver frá litlum vínhúsum. Stærstur hluti framleiðslunnar eru rauðvín (60%) en þaðan koma einnig hvítvín (19%), rósavín (17%) og Cava (4%). Rauðvínin eru að mestu leyti úr Samsó (Carignan) og Garnatxa negró (Grenace) en einnig má nota þrúgur á borð við Cabernet Sauvignon, Merlot, Syrah, Monastrel o.fl. Hvítvínin eru helst úr Garnatxa blanca og Macabeu (Viura) en einnig má nota Chardonnay, Xarel-lo, Gewurztraminer o.fl.

Vínrækt hefur verið stunduð á landareign Castilla Perelada síðan á miðöldum. Þar er stór kastali frá miðöldum sem er ein af þekktustu byggingum Emporda-héraðs. Miguel Mateu keypti Perelada árið 1923 með það að markmiði að efla vínrækt í Emporda og framleiða gæðavín. Í dag stýrir barnabarn Miguels, Javier Suqué Mateu, vínhúsi Perelada. Upphaflega voru vínin geymd í kjallara miðaldakastalans, en nú hefur Perelada tekið í notkun nýja víngerð. Sjálfbærni var höfð að leiðarljósi við bygginguna og víngerðin var fyrsta víngerðin í Evrópu til að fá gullviðurkenningu frá LEED (Leadership in Energy and Environmental Design).

Vín dagsins

Vín dagsins er eitt af einnar-vínekrum vínum Castillo Perelada. Þrúgurnar koma af 19 hektara vínekru sem nefnist Finca Malaveïna („vondi nágranninn“) – sagan á bak við nafnið er því miður fallin í gleymsku. Vínið er blanda af þrúgunum Merlot, Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc og Garnatxa Negra. Að lokinni gerjun fékk vínið að hvíla tæp 2 ár á tunnum úr franski eik.

Castillo Perelada Finca Malaveïna Emporda 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit og þéttan ilm af sólberjum, svörtum kirsuberjum, súkkulaði, eik, vanillu, plómum, brómberjum, kaffi og negul. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og heldur sér vel. 92 stig. Góð kaup (5.555 kr). Fer vel með grilluðu nautaribeye, léttari villibráð, lambasteik og hörðum ostum. Sýnishorn frá innflytjanda.

James Suckling gefur þessu víni 90 stig og Tim Atkin gefur 91 stig. Notendur Vivino gefa því 4,2 stjörnur (386 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Castillo Perelada Finca Malaveïna Emporda 2020
Góð kaup
Castillo Perelada Finca Malaveïna Emporda 2020 fer vel með grilluðu nautaribeye, léttari villibráð, lambasteik og hörðum ostum.
4.5
92 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook