Um þetta leyti árs eru helstu vínskríbentar og -tímarit að tilkynna val sitt á víni ársins. Sitt sýnist hverjum og ég efast um að það hafi gerst að tveir eða fleiri aðilar hafi verið sammála þegar kemur að vali á víni ársins. Sennilega er útnefning Wine Spectator sú sem vekur mesta eftirtekt, og getur verið mjög ábatasöm fyrir þann sem útnefninguna hlýtur. Við valið á víni ársins horfa allir vínskríbentar augljóslega á þau vín sem fjallað hefur verið um á þeirra vettvangi. Þannig hafa bandarísk vín verið áberandi á listum Wine Spectator, og að jafnaði er vín ársins hjá Wine Spectatore annað hvert ár gert í Bandaríkjunum (9 af síðustu 20 vínum ársins hafa verið frá Kaliforníu og 1 frá Washington). Svipaða sögu er að segja af tímaritinu Wine Enthusiast – 5 af síðustu 10 árum hefur vín ársins þar á bæ verið bandarískt. James Suckling er aðeins alþjóðlegri í sínu vali á víni ársins en þar á bæ eru líka gerðir listar yfir 100 bestu vín ársins frá Spáni, Frakklandi, Ítalíu og fleiri löndum.
WIne Spectator birti val sitt á víni ársins í fyrradag og vitiði hvað – vín ársins 2024 er ekki frá Bandaríkjunum! Vín ársins 2024 hjá Wine Spectator er gamall kunningi íslenskra vínunnenda – Don Melchor 2021 frá Chile. Vínið hefur reyndar ekki fengist hérlendis í nokkur ár, en hver veit nema Mekka fái eitthvað af þessu víni? En það eru fleiri vín sem við þekkjum á topp 10 hjá Wine Spectator, meira að segja vín sem fást í Vínbúðinni. Antinori Tignanello 2021 er í 3. sæti og þetta vín fæst í Vínbúðunum (19,999 kr). Í 6. sæti er Roserock Drouhin Oregon Pinot Noir 2022, en 2021-árgangurinn fæst í Vínbúðunum (5.950 kr). Í 9. sæti er svo G. D. Vajra Barolo Albe 2020 – það hefur áður verið í Vínbúðunum og vonandi birtist þetta vín aftur í Vínbúðunum á næstunni. Topp 100-listinn verður svo birtur á morgun og það verður fróðlegt að sjá hvort þar séu fleiri vín sem íslenskir vínunnendur geti nálgast hér á landi.
James Suckling valdi Bertani Amarone Della Valpolicella Classico 2015 sem vín ársins. Eina vínið á topp 10-lista Suckling sem hefur fengist hér er Chateau Suduiraut (2021-árgangurinn er í 10. sæti hjá honum en 2015-árgangurinn fæst ennþá í Vínbúðnum, þó hann virðist vera á útleið). Neðar á topp 100-listanum má svo finna vín sem við könnumst við, þó það séu yfirleitt eldri árgangar sem eru í Vínbúðunum. Á vef James Suckling eru, eins og áður segir, einnig listar yfir 100 bestu vín helstu vínlanda og áhugavert að skoða þá (Don Melchor 2021 er t.d. í 3. sæti á topp 100-listanum fyrir Chile í fyrra).
Ég hef útnefnt Vín ársins á Vínsíðunni á gamlársdag og stefni að því að halda því áfram.