Domaine Camille Thiriet hóf starfsemi sína sem lítið vínhús (micro-négoce) árið 2016. Camille Thiriet hafði unnið hjá vínhúsum í Bourgogne og Kaliforníu. Hún kynntist kanadíska víngerðarmanninum Matt Chittick þegar þau unnu saman hjá Domaine de Bellene í Bourgogne – hann sem víngerðarmaður og hún í söludeildinni. Þau ákváðu að hefja eigin víngerð og byrjuðu í rafmagnslausum bílskúr foreldra hennar fyrir aftan Château de Comblanchien í Côte-d’Or.
Domaine de Bellene, þar sem þau störfuðu, framleiðir vín úr meira en 75 mismunandi upprunasvæðum (appellations), og gaf sú reynsla þeim tækifæri til að kynnast og mynda tengsl við marga virta vínræktendur og framleiðendur í Côte-d’Or. Þetta tengslanet gerði þeim kleift að velja bestu þrúgurnar frá framúrskarandi ræktendum og víngerðarmönnum sem þau þekkja og meta.
Fyrstu árin keyptu þau þrúgur af vínbændum og unnu með þær í bílskúrnum. Allt er gert á gamla mátann – þrúgurnar ýmist pressaðar í lítilli trépressu eða troðnar með fótum. Vínin eru svo ýmist gerjuð í eikartunnum eða stáltönkum. Fyrsta uppskeran – 2016 árgangur – var aðeins um 2.000 flöskur en viðtökurnar voru mjög góðar.
Árið 2022 keyptu þau lítið land með 4,5 hektara af vínviði í þorpinu Corgoloin, skammt frá Comblanchien. Árinu áður höfðu þau keypt tæplega 1 hektara vínekru – „Le Clos Magny“ í Corgoloin. Þau stefna á að framleiðslan verði öll lífræn þegar fram líða stundir (það tekur tíma að fá vínekrur vottaðar sem lífrænar)..
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Domaine Camille Thiriet. Þetta er hreint Pinot Noir sem hefur fengið smá hvíld í eikartunnum áður en það var sett á flöskur.
Domaine Camille Thiriet Côte de Nuits Villages La Montagne 2022 hefur miðlungsdjúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu er góður ilmur af hindberjum, jarðarberjum, hvítum pipar, rifsberjum, kalki, steinefnum, plómum og appelsínuberki. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, fínleg tannín og ríflega miðlungs fylling. Eftirbragðið langt og fínlegt, heldur sér vel. Gott jafnvægi. 92 stig. 10.700 kr. Þetta vín fer vel með andabringum, andaconfit, lambakjöti og hörðum ostum (t.d. Gruyère). Þetta vín fæst aðeins hjá Santé.
Robert Parker gefur þessu víni 91 stig og Jasper Morris gefur því 91 stig.