Cepa Gavilán Crianza Ribera del Duero 2020

Árið 1980 stofnuð Pérez Pascal-bræðurnir – Benjamin, Manuel og Adolfo – vínhús í Ribera del Duero. Vínhúsið nefndu þeir auðvitað eftir þeim sjálfum – Bodegas Hermanos Pérez Pascuas. Víngerð höfðu þeir lært hjá föður sínum Pedro, en hann átti vínekrur sem synirnir svo erfðu. Í dag ná vínekrur bræðranna yfir u.þ.b. 150 hektara, þar sem Tinto Fino (Tempranillo) er ráðandi (þar vex líka lítilræði af Cabernet Sauvignon), en öll vín þeirra eru 100% Tinto Fino. Vínekrurnar eru í um 830 metra hæð yfir sjávarmáli og jarðvegurinn er blanda af leir og kalksteini.

Bestu vín þeirra eru gerð undir merkjum Viña Pedrosa – Crianza, Reserva, Gran Reserva og Gran Reserva Gran Seleccíon.

Vín dagsins

Vín dagsins er, líkt og önnur vín þeirra bræðra, hreint Tinto Fino (Tempranillo). Vínviðurinn er látinn vaxa í s.k. bikar (gobelet) líkt og algengt er á heitum vínekrum. Þrúgur af slíkum vínvið þarf að uppskera með handafli. Að lokinni gerjun er vínið lagt í tunnur úr franskri og amerískri eik þar sem það fær að hvílast í a.m.k. 12 mánuði. Eftir átöppun á flöskur er það svo látið hvíla aðra 12 mánuði áður en það yfirgefur vínhúsið. Önnur vín þeirra bræðra fá flest lengri tíma í eikartunnum og á flöskum áður en þau fara á markaði, og þetta er því yngsta vínið þeirra (og nýjasta – fyrst gert 2004). Sums staðar er þetta vín selt undir nafninu El Pedrosal. Ársframleiðslan á þessu víni er um 220.000 flöskur.

Cepa Gavilán Crianza Ribera del Duero 2020 hefur djúprauðan lit og nokkuð góða dýpt en þó unglegt að sjá. Í nefinu er ríflega miðlungsþéttur ilmur af plómum, tóbaki, brómberjum, kirsuberjum, vanillu, leðri, kaffi og dökku súkkulaði. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, nokkuð þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð vel og þar koma einnig fram bláber og krækiber, ásamt þeim tónum sem finna má í nefinu. 90 stig. Mjög góð kaup (3.555 kr). Þetta vín fer vel með góðum steikum – lambi, nauti og léttari villibráð, en einnig margvíslegum tapas og hörðum ostum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (630 umsagnir þegar þetta er skrifað). Eymar á Vínsíðunum gefur því 93 stig, Tim Atkin gefur 92 stig og Guia Peñin 90 stig. Robert Parker gefur því 90 stig.

Cepa Gavilán Crianza Ribera del Duero 2020
Mjög góð kaup
Cepa Gavilán Crianza Ribera del Duero 2020 fer vel með góðum steikum - lambi, nauti og léttari villibráð, en einnig margvíslegum tapas og hörðum ostum.
4
90 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook