Í síðustu færslu hér á Vínsíðunni var fjallað um hið stórgóða Orben frá Gonzalo Antón og fjölskyldu. Antón stofnaði vínhúsið Bodega Izadi árið 1987 og hefur með tímanum fært út kvíarnar með stofnun dóttur-vínhúsa í m.a. Rioja og Ribera del Duero. Vínið sem hér er fjallað um er þó eitt af fyrstu vínum Izadi. Fyrsti árgangur þessa víns er frá árinu 1989 og vínið fagnar því 30 ára afmæli með því víni sem nú er í Vínbúðunum.
Vínið er ýmist hreint Tempranillo eða með 8-12% Graciano, en þetta er misjafnt milli árganga. 2019-árgangurinn er hreint Tempranillo á meðan bæði 2018 og 2020 hafa 9% Graciano. Allir árgangar hafa hins vegar fengið 16 mánaða geymslu á eikartunnum – helmingurinn úr amerískri eik, helmingurinn úr franskri eik. Ársframleiðslan er að jafnaði um 145.000 flöskur.
Izadi Rioja Reserva 2019 hefur fallegan djúprauðan lit með nokkuð þéttan ilm af svörtum plómum, kirsuberjum, vanillu, leðri, brómberjum, tóbaki, súkkulaði, kaffi og negul. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, ágæt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið hefur góða þéttni og heldur sér vel. 92 stig. Frábær kaup (3.555 kr). Njótið með góðu nautaribeye, grilluðu lambakjöti eða hörðum ostum. Vínið er gott núna en þolir vel 3-5 ára geymsli til viðbótar við góðar aðstæður. Sýnishorn frá innflytjanda.
Wine Spectator gefur þessu víni 91 stig. Notendur Vivino gefa víninu 4,0 stjörnur (1938 umsagnir þegar þetta er skrifað). James Suckling gefur því 94 stig. Eymar hjá Vínsíðunum gefur því 88 stig.