Orben Rioja 2020

Þó að Orben hafi fyrst litið dagsins ljós árið 2005 þá er saga þess nokkuð lengri. Gonzalo Antón var orðinn nokkuð þekktur í hótel- og veitingageira Baskalands þegar hann ákvað að skella sér út víngerð. Þetta var árið 1987 og fyrstu vín hans voru gerð undir merkjum Bodegas Izadi. Vínin vöktu fljótt lukku neytenda og gagnrýnenda. Þegar sonur Gonzalo, Lalo Antón, gekk til liðs við fjölskyldufyrirtækið (sem kallast Artevino) árið 2000 voru kvíarnar færðar út og dótturfélög stofnuð í Rioja, Toro og Ribera del Duero.

Dótturfélagið í Rioja kallst Orben. Vínekrur Orben liggja í norðurhluta Rioja – Rioja Alavesa – sem er syðsti hluti Baskalands. Orben gerir þrjú vín – hvítvín sem kallast Chocolate, og svo rauðvínin Orben og Malpuesto.

Vín dagsins

Vín dagsins er ekki skilgreint sem Crianza eða Reserva. Þetta er hreint Tempranillo-vín, sem að lokinni gerjun í stáltönkum er lagt til hvíldar í 12 mánuði í frönskum eikartunnum (helmingur nýjar tunnur, helmingur tunnur sem hafa verið notaðar einu sinni áður). 2016-árgangur Orben lenti í 13. sæti á lista Wine Spectator yfir bestu vín ársins 2019.

Orben Rioja 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu er þéttur ilmur af sólberjum, kirsuberjum, vanillu, leðri, súkkulaði og eik. Vínið er þurrt, sýruríkt, með þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og heldur sér vel, og þar má finna áðurnefnd sólber, kirsuber, vanillu, leður, eik og súkkulaði. 93 stig. Mjög góð kaup (4.888 kr). Fer vel með grilluðu nautakjöti, lambi, villibráð og tapas.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (88 umsagnir þegar þetta er skrifað). Tim Atkin MW gefur víninu 92 stig og James Suckling gefur því 93 stig. Guia Peñin gefur 94 stig.

Orben Rioja 2020
Mjög góð kaup
Orben Rioja 2020 er mjög gott vín sem fer vel með grilluðu nautakjöti, lambi, villibráð og tapas.
4.5
93 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook