Matilda Nieves Ribeira Sacra Mencía 2020

Ribeira Sacra nefnist vínhérað sem staðsett er í norðvesturhluta Spánar. Það hefur í gegnum árin þróast frá því að vera frekar óþekkt til þess að verða eitt af þeim héruðum sem vínunnendur um allan heim vilja kynnast. Vínhéraðið liggur í hjarta Galisíu, á svæði þar sem landið er mótað af ánum Sil og Miño. Árnar hafa í gegnum aldirnar grafið djúpa dali sem skapa dramatískt landslag, brattar hlíðar og einstaklega flókin jarðvegsskilyrði.

Saga víngerðar í Ribeira Sacra á, líkt og svo víða annars staðar í suður-Evrópu, rætur að rekja til rómverskra tíma. Á þeim tíma grófu rómverskir hermenn víngarða inn í brattar hlíðar árdalanna, og er þetta svæði talið vera eitt elsta víngerðarhérað Spánar. Eftir fall Rómaveldis voru það munkar sem tóku við og hlúðu að vínræktinni í gegnum miðaldirnar. Þeir byggðu klaustur og kapellur við árnar og nefndu svæðið „Ribeira Sacra“ sem þýðir „heilagt fljót“ vegna nálægðar víngarðanna við þessar helgu byggingar. Þannig varð víngerðin órjúfanlegur hluti af sögu og menningu Ribeira Sacra.

Þrátt fyrir langa sögu þá náðu Ribeira Sacra vínin ekki almennri viðurkenningu fyrr en undir lok 20. aldar. Árið 1996 fékk svæðið formlega DO-staðfestingu (Denominación de Origen), sem hefur síðan orðið til þess að Ribeira Sacra nýtur nú alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir sín gæðavín. Innan Ribeira Sacra eru svo fimm skilgreind vínræktarsvæði – Amandi, Chantada, Quiroga-Bibei, Ribeiras do Miño og Ribeiras do Sil.

Landslag og loftslag

Víngarðarnir í Ribeira Sacra sitja í bröttum hlíðum meðfram ánum Sil og Miño sem ná allt að 85% halla, sem gerir víngerð á þessu svæði ótrúlega krefjandi. Sum svæði eru skilgreind sem „viticultura heroica“ (hetjuvíngerð) vegna þess að það krefst ómældrar vinnu og þolinmæði að rækta vínviðinn í þessum bröttu hlíðum. Vínbændur verða oft að bera þrúgurnar á bakinu niður hlíðarnar þar sem engin önnur leið er fær.

Loftslagið er blanda af Atlantshafs- og meginlandsáhrifum, með mildum vetrum og heitum sumrum. Þetta þýðir að Ribeira Sacra nýtur góðs af sólskini á daginn og svalari nóttum, sem hjálpar til við að varðveita ferskleika og sýrur í vínunum. Jarðvegurinn er einnig fjölbreyttur, samsettur af graníti, skífu og leir, sem gefur þrúgunum sinn sérstaka karakter og gerir vínin fjölbreytt og flókin.

Þrúgur og einkenni vínanna

Þótt í Ribeira Sacra séu framleidd bæði rauðvín og hvítvín, þá eru það rauðvínin sem hafa öðlast hvað mesta viðurkenningu. Aðalþrúgan í Ribeira Sacra er Mencía, sem gerir allt að 85% af rauðvínsframleiðslunni á svæðinu. Mencía-þrúgan er þekkt fyrir að gefa af sér rauðvín með björtum ávaxtatónum, blómakeim og ferskri sýru. Ribeira Sacra-vínin úr Mencía hafa yfirleitt bragð af kirsuberjum, hindberjum, oft með örlitla sætu og stundum smávegis af kryddi og steinefnum.

Hvítvínin eru aðallega unnin úr þrúgum eins og Godello, Albariño og Treixadura. Godello-vínin eru bragðmikil, með góðri sýru og steinefnatón, á meðan Albariño gefur af sér vín með ferskan sítrus- og blómakeim. Treixadura bætir við mýkt og blómatónum, sem gerir hvítvín Ribeira Sacra fjölbreytt og áhugaverð. Godello og Albariño eru oftar gerð sem einnar þrúgu vín en Treixadura kemur oftar fyrir í blöndum með hinum þrúgunum.

Víngerðarstíll og tækni

Víngerð í Ribeira Sacra einkennist af hefðum og handverki. Þrátt fyrir að sumir víngerðarmenn hafi innleitt nútímalega tækni, þá er enn mjög mikil áhersla lögð á að halda í hefðirnar. Stundum er líka einfaldlega ekki hægt að vinna vínviðinn nema í höndunum, þar sem vínekrurnar eru oftast í snarbröttum hlíðum. Víngerðarmenn leggja áherslu á að nota innlendar gergerðir og hlúa að umhverfisvænni víngerð, þar sem margir beita lífrænum eða náttúrulegum framleiðsluháttum.

Rauðvínin eru oftar látin þroskast í stál- eða sementstönkum, sem leyfir náttúrulegu ávaxtabragði að skína í gegn. Hins vegar má einnig finna Ribeira Sacra-vín sem hafa verið látin þroskast í eikartunnum, sem gefur þeim aukna dýpt og fyllingu.

Á matborðinu

Ribeira Sacra-vín eru fjölhæf og passa vel með ýmsum réttum. Mencía-vínin henta sérstaklega vel með spænskum tapas, lambakjöti, grilluðu grænmeti og jafnvel feitum fiski eins og túnfiski. Hvítvínin úr Godello og Albariño eru frábær með sjávarréttum, rækjum, humri og ljósari fiskréttum, sem og sumarsalötum og mjúkum ostum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Rectoral de Amandi sem er eitt stærsta vínhúsið í Ribeira Sacra, með ársframleiðslu upp á u.þ.b. 2 milljónir flaska. Rectoral de Amandi á um 20 hektara af vínekrum í Amandi, þar sem er skilgrein „hetjuvíngerð“, auk þess sem það á um 120 hektara í öðrum héruðum Ribeira Sacra og kaupir einnig þrúgur af öðrum vínbændum í héraðinu. Vínið sem hér er fjallað um er gert úr þrúgunni Mencía. Vínið er gerjað við 25°C í stáltönkum og síðan látið þroskast áfram í stáltönkunum.

Matilda Nieves Ribeira Sacra Mencía 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu er þéttur ilmur af sólberjum, kirsuberjum, trönuberjum, leðri, plómum, hindberjum, vanillu, fjólum, súkkulaði, lakkrís og steinefnum. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér vel og þar má finna sólber, kirsuber, hindber, plómur, leðu, lakkrís og smá súkkulaði. 91 stig. Frábær kaup (3.190 kr). Fer vel með með rauðu kjöti hvers konar, ostum, pylsum og pizzum.

Þetta vín fékk 97 stig í Decanter World Wine Awards og titilinn Best in Show. Wine Enthusiast gefur því 88 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (1.485 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Matilda Nieves Ribeira Sacra Mencía 2020
Frábær kaup
Matilda Nieves Ribeira Sacra Mencía 2020 fer vel með með rauðu kjöti hvers konar, ostum, pylsum og pizzum.
4.5
91 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook