Það er almennt talið að Cannonau sé ein elsta þrúga Ítalíu, og sögusagnir segja að hún hafi verið ræktuð á Sardiníu fyrir meira en 3.000 árum. Rannsóknir á síðustu árum hafa bent til þess að Cannonau sé ein af fyrstu þrúgunum sem voru ræktaðar í Evrópu, sem gerir það að mjög merkilegu víni hvað varðar víngerðarsögu.
Það eru vissulega margar kenningar um uppruna þrúgunnar, en margir sérfræðingar trúa því að hún hafi borist til Sardiníu frá Spáni á tímum Aragonska konungsríkisins á 14. öld. Rannsóknir hafa sýnt að Cannonau er erfðafræðilega eins og þrúgan Grenache, sem er ræktuð víða um heim, m.a. á Spáni. Cannonau hefur þó þróast á sinn einstaka hátt á Sardiníu og hefur aðlagast loftslagi og jarðvegi eyjarinnar.
Cannonau di Sardegna fékk sína eigin DOC (Denominazione di Origine Controllata) vernd árið 1972. Þetta þýðir að vínið er háð ákveðnum gæðakröfum og þarf að vera framleitt innan ákveðinna svæða á eyjunni. DOC-reglurnar krefjast þess að vínið innihaldi að minnsta kosti 90% Cannonau-þrúgur, með hinum 10% leyfilegum fyrir aðrar þrúgur sem eru ræktaðar á svæðinu.
Heimilt er að gera sjö mismunandi vín undir merkjum Cannonau di Sardegna DOC. Rauðvín eru ýmist kölluð rosso eða classico, þar sem classico hefur hærra áfengishlutfall. Riserva þurfa að hafa fengið a.m.k 2 ára þroskun áður en þau fara í sölu, þar af minnst 12 mánuði á eikartunnum. Einnig eru gerð rósavín og styrkt vín – liquoroso dolce (sæt) og liquoroso secco (þurr). Þá eru einnig gerð sætvín úr þurrkuðum þrúgum – Passito.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá vínhús Audarya á Sardiníu. Vínið er gert úr þrúgunni Cannonau, gerjað í stáltönkum og látið hvílast þar fyrir átöppun.
Audarya Cannonau di Sardegna 2023 hefur ljósrauðan lit og miðlungsþétta angan af kirsuberjum, rifsberjum, granateplum, svörtum pipar og lyngi. Í munni er vínið þurrt, mið tæplega miðlungstannín, frísklega sýru og gott jafnvægi. Eftirbragðið heldur sér ágætlega og þar má greina kirsuber, hindber, lyng og pipar. 89 stig. Ágæt kaup (3.962 kr). Fer vel með svínakjöti, lambi, pizzum, skinku og hörðum ostum, en er líka prýðisgott eitt og sér.
Meðaleinkunn allra árganga á Vivino eru 3,7 stjörnur (1433 umsagnir þegar þetta er skrifað) en ég fann ekki aðrar umsagnir um þennan árgang.