Viña Ardanza Rioja Reserva 2017

Vín dagsins kemur frá vínhúsi La Rioja Alta. Vínhúsið hefur nokkrum sinnum fengið umfjöllun hér á Vínsíðunni og litlu við að bæta. Þann 28. apríl 2017 gerði óvænt nokkuð frost í Rioja og margir vínbændur urðu fyrir skakkaföllum vegna þess. Þó svo að sumarið hafi verið gott þá varð uppskeran í minna lagi hjá flestum vínbændum. Frostið náði þó ekki yfir vínekrurnar í Cenicero og Tudelilla, en þaðan koma þrúgurnar sem fara í vín dagsins.

Vínið er gert úr þrúgunum Tempranillo (80%) og Garnacha (20%). Að lokinni gerjun í stáltönkum (hitanum haldið við 27°C) var vínið sett í tunnur úr amerískri eik (20% nýjar tunnur) – Tempranillo í 36 mánuði og Garnacha í 30 mánuði. Vínið var svo blandað og sett á flöskur í mars 2021. Alls voru gerðar um 600.000 flöskur af þessu víni.

Viña Ardanza Rioja Reserva 2017 hefur djúpan rúbínrauðan lit og þéttan ilm af kirsuberjum, hindberjum fíkjum, sólberjum, rifsberjum, plómum, pipar, lakkrís, negul og eik. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er kröftugt og heldur sér vel og lengi. 94 stig. Frábær kaup (5.299 kr). Fer vel með góðri, grillaðri steik (naut, lamb, villibráð) en einnig spænskum pylsum og þroskuðum ostum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,4 stjörnur (1.240 umsagnir þegar þetta er skrifað), Robert Parker gefur því 94 stig, James Suckling gefur 95 stig, Wine Spectator gefur 92 stig og Tim Atkin gefur 94 stig.

Viña Ardanza Rioja Reserva 2017
Frábær kaup!
Viña Ardanza Rioja Reserva 2017 fer vel með góðri, grillaðri steik (naut, lamb, villibráð) en einnig spænskum pylsum og þroskuðum ostum.
5
94 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook