Rhône-dalurinn í Frakklandi er eitt af þekktustu vínhéruðum Frakklands. Héraðið skiptist í norður- og suðurhluta, ekki aðeins landfræðilega heldur einnig vínfræðilega. Rauðvín frá norðurhluta Rhône eru öll byggð á Syrah-þrúgunni en í suðurhlutanum koma ýmsar aðrar þrúgur við sögu. Það eru sjálfsagt skiptar skoðanir á því hvaða svæði eru best í Rónardalnum, en líklega er tilkall Hermitage til þess titils nokkuð sterkt.
Vínekrur Hermitage eru á Hermitage-hæðinni og ná yfir um 136 hektara. Rauðvín og hvítvín frá Hermitage eru þekkt fyrir mikla dýpt, styrk, flókin bragðeinkenni og framúrskarandi hæfni til að eldast vel. Þau eru eftirsótt á meðal vínsafnara en eru yfirleitt mjög dýr og vandfundin.
Vínekrurnar sem liggja umhverfis Hermitage-hæðina tilheyra hins vegar Crozes-Hermitage. Svæðið spannar u.þ.b. 1.200 hektara og jarðvegurinn er fjölbreyttur – sandur, kalksteinn, leir og smágrýti. Þessi jarðvegssamsetning gerir það að verkum að vínin eru fjölbreytt og hafa mismunandi eiginleika eftir því hvar á svæðinu vínviðurinn er ræktaður. Loftslagið er einkennandi fyrir norðurhluta Rhône, þar sem Mistral-vindurinn blæs reglulega og þurrkar upp rigningu, en sumar eru heitar og vetur milt.
Syrah þrúgan er drottningin í rauðvínum Crozes-Hermitage (það er þó heimilt að nota smávegis af hvítu þrúgunum Marsanne og Roussanne). Rauðvínin frá þessu svæði eru oft með djúpa og ríka liti, með einkennum af dökkum berjum, svörtum pipar, lakkrís og kryddjurtum. Syrah-vínin frá Crozes-Hermitage eru stundum mildari en nágranna þeirra frá Hermitage, en þau geta verið alveg jafn flókin og þroskavæn.
Í Crozes-Hermitage eru einnig gerð hvítvín úr þrúgunum Marsanne og Roussanne. Þessi hvítvín eru oft nokkuð ávaxtarík, með ferskum sítrónutónum, hunangsyfirbragði og stundum blómakenndum tónum. Þau hafa fína sýru og hægt er að njóta þeirra bæði ungra eða þroskaðra.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur úr smiðju E. Guigal, sem er einn þekktasti framleiðandinn í norðurhluta Rónardals. Vínhúsið var stofnað árið 1946 af Etienne Guigal og er nú í umsjón þriðju Guigal-kynslóðarinnar. Guigal á vínekrur í flestum héruðum N-Rhône og flaggskip þeirra (stundum kölluð „La-La“ vínin – La Mouline, La Landonne og La Turque) eru á meðal bestu vína heims. Vínið sem hér er fjallað um kemur frá Crozes-Hermitage og er gert úr Syrah-þrúgunni. Vínið er gerjað í stáltönkum við nokkuð háan hita, en það dregur meiri lit og tannín úr þrúgunum. Kaldari/tempruð gerjun gefur yfirleitt minni tannín en meiri ávaxtatóna. Að lokinni gerjun er vínið sett á eikartunnur þar sem það fær að þroskast í 18 mánuði. Árlega eru framleiddar um 450.000 flöskur af þessu víni.
E. Guigal Crozes-Hermitage 2021 hefur rúbínrauðan lit með fjólubláum blæ. Í nefinu er nokkuð kröftug angan af sólberjum, leðri, plómum, kirsuberjum, tóbaki, hindberjum, brómberjum og pipar. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt, með rífleg miðlungstannín og ágæta fyllingu. Eftirbragðið er kryddað og heldur sér nokkuð lengi. Þar má greina dökk ber, leður, plómur, tóbak, eik, myntu og pipar. 89 stig. Góð kaup (3.999 kr í Fríhöfninni). Fer vel með piparsteik og villibráð.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (62 umsagnir þegar þetta er skrifað – meðaleinkunn árganga eru 3,8 stjörnur).