Bodegas Roda, sem er staðsett í hjarta Rioja á Spáni, hefur unnið sér sess sem eitt af fremstu vínhúsum Rioja. Bodegas Roda var stofnað árið 1987 af Mario Rotllant og Carmen Daurella. Roda hefur frá upphafi lagt megináherslu á nýsköpun, gæði og sjálfbærni í sinni framleiðslu.
Upphaflega var Roda eingöngu með vínekrur í Rioja, en með tímanum hefur Roda haslað sér völl í Riber del Duero. Öll vín frá Roda eru látin þroskast í frönskum eikartunnum (flest vínhús í Rioja nota amerískar eikartunnur, einkum fyrir yngri vin).
Bodegas Roda býður upp á tvær aðal línur af vínum: Roda og Roda I, sem bæði eru framleidd úr Tempranillo þrúgunni með mismunandi hlutföllum af Graciano og Garnacha. Flaggskipið er þó Cirsion, úrvals vín sem er aðeins framleitt á bestu árum. Sérstakt teymi starfsmanna kembir þá vínekrur Roda og velur þær plöntur sem gefa af sér þrúgurnar í Cirsion. Vínviðurinn verður að vera orðinn a.m.k. 40 ára og afköst hverrar plöntu mega ekki vera of mikil.
Sjálfbærni er einnig lykilatriði hjá Bodegas Roda. Þeir hafa innleitt umhverfisvæn vinnubrögð, svo sem lágmarks notkun á varnarefnum og efnaáburði í öllu framleiðsluferlinu, og nýta endurnýjanlega orkugjafa í framleiðslunni. Þetta er til marks um skuldbindingu þeirra til að varðveita náttúruauðlindir og stuðla að sjálfbærri framtíð fyrir næstu kynslóðir.
Mario er mikill Íslandsvinur og hefur margoft komið til Íslands, m.a. til laxveiða. Ég var svo heppinn að hitta Mario fyrir nokkrum árum, þegar hann kynnti vín Roda og Corimbo (vínhúsið í Ribera del Duero). Þar ræddum við m.a. um laxveiðiáhuga hans. Mario kvaðst eiga tvær uppáhalds laxveiðiár á Íslandi – Haffjarðará á Snæfellsnesi og Selá í Vopnafirði. Eitt af vínum Roda er heitir Sela, en það er einmitt nefnt eftir Selá í Vopnafirði (Mario sagði það heppilegra nafn á víni en Haffjardara!).
Vín dagsins
Vín dagsins er að mestu gert úr Tempranillo, en inniheldur einnig lítilræði af Graciano (4%) og Garnacha (3%). Vínið er gerjað í hitastýrðum eikarámum og að því loknu er það sett á franskar eikartunnur (40% nýjar, 60% notað einu sinni áður) og geymt í 14 mánuði. Að lokinni átöppun á flöskur var vínið svo geymt í 22 mánuði til viðbótar áður en það fór í sölu. Reglur Rioja kveða einmitt á um að Reserva-rauðvín verði að þroska í a.m.k. 3 ár, þar af að lágmarki 1 ár á eikartunnum.
Roda Reserva Rioja 2019 hefur djúpan rúbínrauðan lit, með kröftugan ilm af vanillu, negul, sólberjum, plómum kirsuberjum, leðri, kanil og kaffi. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með rífleg miðlungstannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og heldur sér vel, og þar má greina kirsuber, plómur, leður, kanil, kaffi og vanillu. 93 stig. Mjög góð kaup (5.499 kr). Fer vel með góðri nautasteik, lambi, iberico skinku og Manchego osti.
James Suckling gefur þessu víni 93 í einkunn og Tim Atkin gefur 94. Notendur Vivino gefa þessu víni að meðaltali 4,2 stjörnur (1283 umsagnir þegar þetta er skrifað).