Stapleton & Springer Ben’s Reserve Pinot Noir 2020

Þessa dagana er ég staddur í Prag í Tékklandi. Sonur minn er að tefla á Evrópumóti ungmenna í skák og ég hef því haft nokkuð góðan tíma aflögu til ýmissa hluta (svo er annað mál hversu vel sá tími er nýttur…). Við vorum hér öll fjölskyldan fyrstu dagana og fórum þá á ágætan veitingastað á svæði sem heitir Kampa Park og er við ána Vltava (sem á íslensku mun vera kölluð Moldá). Þar fengum við ágætt Pinot Noir frá Móravíu í Tékklandi (sjá neðar) og því tilvalið að skoða aðeins nánar vínrækt í Tékklandi (sem er að stærstum hluta í Móravíu).

Þó svo að Tékkar séu þekktari fyrir bjórgerð, þá á vínrækt í Móravíu sér langa sögu og er mikilvægur hluti af menningu og efnahag Tékklands. Móravía, sem er staðsett í suðausturhluta landsins, er stærsta vínræktarsvæði Tékklands og nær yfir um 96% af heildarvínræktarlandi landsins. Í Bóhemíu, norðar í Tékklandi, er einnig að finna vínekrur sem eru á meðal þeirra nyrstu í Evrópu. Vínekrurnar í Bóhemíu eru við 50. breiddargráðu eða álíka norðarlega og Champagne.

Sagan

Saga víngerðar í Móravíu nær aftur til fornaldar, líklega þegar Rómverjar komu til svæðisins á 3. öld. Vínrækt blómstraði á miðöldum, sérstaklega eftir að munkar í klaustrum hófu skipulagða ræktun og víngerð. Vínrækt á svæðinu hefur verið í stöðugri þróun síðan þá, en upplifði miklar breytingar á 20. öld með tilkomu iðnvæðingar og aukinnar áherslu á gæði og fjölbreytni eftir fall kommúnismans í Tékklandi.

Á Wikipedia er ágæt grein um sögu tékkneskrar vínræktar sem áhugasamir geta kynnt sér nánar.

Loftslag og jarðvegur

Loftslag Móravíu er tiltölulega milt, með heitum sumrum og köldum vetrum, sem skapar kjörskilyrði fyrir víngerð. Jarðvegurinn er fjölbreyttur, allt frá kalksteins- og sandsteinsjarðvegi til leirs og setlaga, sem hefur áhrif á karakter vínanna. Fjölbreytileikinn í jarðvegi gerir ræktendum kleift að velja réttan jarðveg fyrir hverja tegund af þrúgum, sem leiðir til margbreytileika í bragði og einkennum vínanna.

Helstu þrúgur

Móravía er þekkt fyrir bæði hvítvín og rauðvín, þó hvítvín séu ríkjandi. Algengustu þrúguafbrigðin eru meðal annars:

  • Grüner Veltliner
  • Gewürztraminer
  • Pinot Gris
  • Müller-Thurgau
  • Riesling
  • Welschriesling
  • Pinot Noir
  • Blaufränkisch:
  • Zweigelt

Vínsvæðin í Móravíu

Móravía skiptist í fjögur megin vínræktarsvæði:

  1. Znojemská: Þekkt fyrir frískleg hvítvín, sérstaklega Sauvignon Blanc og Riesling.
  2. Mikulovská: Framleiðir bæði rauðvín og hvítvín, með áherslu á Welschriesling og Grüner Veltliner.
  3. Slovácká: Mjög fjölbreytt svæði með margs konar afbrigðum, bæði rauðum og hvítum.
  4. Velkopavlovická: Helsta Pinot Noir svæði, en einnig þekkt fyrir Zweigelt og Saint Laurent.

Víngerðaraðferðir

Í Móravíu eru bæði hefðbundnar og nútímalegar víngerðaraðferðir notaðar. Sumir ræktendur fylgja náttúrulegum eða lífrænum aðferðum, þar sem engin eða lítil notkun er á tilbúnum efnum og skordýraeitri.

Áhersla er lögð á handtínslu og vandlega flokkun þrúgna til að tryggja að aðeins hæsta gæðastig komist í vínframleiðsluna. Vín eru oft látin eldast á tunnum (oftast úr franskri eða slóvenskri eik) eða í stáltönkum.

Um 10% af tékkneskum vínum eru flokkuð samkvæmt flokkunarkerfi sem byggir á sætleika og svipar mjög til þýska kerfisins.

Vín frá Móravíu hafa á síðustu árum hlotið alþjóðlegar viðurkenningar og verðlaun, sem staðfestir vaxandi orðspor svæðisins fyrir gæði og nýsköpun í víngerð. Víngerðarmenn í Móravíu leggja mikla áherslu á að viðhalda sérkennum sínum á sama tíma og þeir sækja í alþjóðlega strauma og tækni.

Með fjölgun smærri vínhúsa sem leggja áherslu á gæði og einstakleika hefur Móravía staðfest stöðu sína sem eitt áhugaverðasta vínræktarsvæði Mið-Evrópu. Vínunnendur um allan heim eru farnir að taka eftir einstökum vínum frá svæðinu, og framtíðin virðist björt fyrir vínframleiðendur í Móravíu.

Vín dagsins

Vínhús Stapleton & Springer er staðsett í Móravíu Tékklandi, stofnað af tveimur víngerðarmönnum, John Stapleton frá Bandaríkjunum og Marek Springer frá Tékklandi. Víngerð Stapleton & Springer einbeitir sér að náttúrulegum framleiðsluaðferðum þar sem bæði lífrænar og biodynamískar aðferðir eru notaðar við ræktunina.

Vínið sem hér um ræðir er framleitt úr handtíndum Pinot Noir-þrúgum. Að lokinni gerjun er vínið þroskað í frönskum eikartunnum í 12-18 mánuði.

Stapleton & Springer Ben’s Reserve Pinot Noir 2020 hefur léttan kirsuberjarauðan lit og þægilegan ilm af kirsuberjum, hindberjum, kryddum og leðri. Vínið er þurrt, sýruríkt og með miðlungs fyllingu og miðlungs tannín. Eftirbragðið er gott, með rauðum berjum, vanillu, leðri, kryddi og örlitlum jörðartónum. 90 stig. Góð kaup. Hentar vel með önd, kalkún eða grilluðum fiski.

Meðaleinkunn allra árganga á Vivino eru 4 stjörnur (of fáar umsagnir til um þennan árgang til að hann fái meðaleinkunn).

Stapleton & Springer Ben’s Reserve Pinot Noir 2020
Góð kaup
Stapleton & Springer Ben's Reserve Pinot Noir 2020 hentar vel með önd, kalkún eða grilluðum fiski.
4
90 stig

Vinir á Facebook