Hversu áreiðanlegt er Vivino?

Flestir íslenskir vínunnendur kannast við Vivino – appið þar sem hægt er að skanna inn vínflöskur, lesa umsagnir annarra og gefa sína eigin umsögn. Notendur á Íslandi skipta þúsundum (ég hef þó ekki nákvæmar tölur) og á heimsvísu eru notendur tæplega 70 milljónir. Notendur Vivino hafa skannað tæplega 2.900.000.000 flöskumiða og þar er að finna upplýsingar um 18 milljón vín. Alls hafa verið gefnar rúmlega 304 milljón einkunnir og skrifaðar rúmlega 104 milljón umsagnir.

Það eru skiptar skoðanir um ágæti Vivino. Sumir segja að það sé ekkert að marka einkunnirnar – léleg vín hafi allt of háar einkunnir og notendur hafi fæstir næga þekkingu á vínum til að geta gefið raunhæfa umsögn. Aðrir segja hins vegar að þetta sé fyllilega marktækt, enda endurspegla umsagnirnar álit hins almenna neytanda á þessum vínum.

Eins og kemur fram hér að ofan þá er búið að skanna tæplega 3 milljarða af vínflöskum. Tíunda hver skönnun leiðir til einkunnagjafar og þriðju hverju einkunn fylgir umsögn. Umsagnirnar geta reyndar við allt frá ítarlegum lýsingum (þó ekki meira en 500 stafir) niður í einfalda lýsingu á borð við „gott!“ Á bak við sum vínin eru þúsundir umsagna og einkunna . Whispering Angel hefur alls tæplega 90.000 umsagnir og einkunnir, Baron de Ley Reserva hefur alls tæplega 64.000 umsagnir og einkunnir. Önnur vín hafa hins vegar svo fáar umsagnir að aðeins er hægt að sjá meðaleinkunn allra árganga (og stundum ekki einu sinni það).

Af þessum tæplega 70 milljónum skráðra notenda þá er fjöldi virkra notenda væntlega eitthvað minni. Lausleg athugun á virkri íslenskra notenda sýnir að af 500 virkustu notendum Vivino undanfarið ár voru 304 sem gáfum a.m.k. eina umsögn undanfarinn mánuð. Í apríl 2024 voru um 5 milljón heimsóknir á Vivino.com þar sem hver notandi staldraði að meðaltali við í rúmar 2 mínútur.

En er eitthvað að marka þetta?

Það hafa verið gerðar nokkrar athuganir á því hver fylgnin er á milli einkunna Vivino-notenda og þekktra vínspekúlanta. Orestis Kopsacheilis og félagar birtu nýlega niðurstöður athugana sinna á þessu sviði. Þeir skoðuðu einkunnir nokkurra þekktra vínspekúlanta (James Suckling, Jancis Robinson, Jeff Leve, Neal Martin, Rene Gabriel og Tim Atkin, ásamt einkunnum sérfræðinga frá Decanter og Wine Advocate (tímarit Robert Parker)) á ungum Bordeaux-vínum (árgangar 2004-2016) og báru saman við einkunnir sem Vivino-notendur höfðu gefið sömu vínum. Alls voru þetta um 780 vín og tæplega 80.000 einkunnir sem komu til skoðunar. Á endanum voru 39.035 einkunnir fyrir 371 vín þar sem fundust einkunnir frá a.m.k. 3 sérfræðingum.

Niðurstöðurnar voru nokkuð skýrar. Meðaleinkunnir á Vivino höfðu ágætaa fylgni (r=0,40) við einkunnir flestra sérfræðinganna. Mesta fylgni við Vivino höfðu Wine Advocate (Robert Parker, r=0,50) og Jeff Leve (r=0,49). Minnsta fylgni við Vivino hafði Decanter (r=0,16). Einkunnir sérfræðinganna höfðu hins vegar mun hærri fylgni við einkunnir hinna sérfræðinganna (allt að r=0,78) en við Vivino. Þennan mun má eflaust skýra með því að sérfræðingarnir taka meira tillit til möguleika vínanna á að batna með frekari þroska og geymslu. Einkunnir Vivino-notenda eru hins vegar líklegri til að vera dómur um vínið á þeim stað og stund sem það er drukkið.

Þannig má segja að ef þú ert að leita að víni sem þú ætlar þér að geyma til betri tíma þá er sennilega betra að horfa til sérfræðinganna. Ef þú ert hins vegar að leita að víni til að opna í kvöld þá eru einkunnir Vivino-notenda vel nothæfar.

Þá er það líka staðreynd að stór hluti þeirra vína sem fást í vínbúðum á Íslandi og í öðrum löndum hafa aldrei ratað á borð vínsérfræðinganna, en þau gætu hins vegar haft fjölmargar umsagnir á Vivino. Það á meðal annars við um söluhæsta hvítvínið á Íslandi í fyrra (Barefoot Pinot Grigio), söluhæsta freyðivínið (Piccini Prosecco Extra Dry) og söluhæsta rauðvínið (Tommasi Graticcio Appassionato). Það finnast einkunnir um Piccini Prosecco í Decanter World Wine Awards en ekki hjá hinum sérfræðingunum – hin vínin er hvergi að finna. Þau eru hins vegar öll á Vivino – hvítvínið með 23.000 umsagnir, freyðivínið tæplega 4.000 og rauðvínið um 40.000!

Vinir á Facebook