CVNE Imperial Reserva 2018

Vínhús CUNE rekur sögu sína til ársins 1879 og fagnar því 145 ára afmæli á þessu ári. Vínhúsið var stofnað af bræðrunum Eusebio og Raimundo Real de Asúa og fullu nafni heitir vínhúsið Compañía Vinícola del Norte del España eða Norður-spænska vínfélagið, skammstafað CVNE. Strax á fyrsta árganginum sem vínhúsið sendi frá sér var stafsetningarvilla á flöskumiðanum þar sem stóð CUNE í stað CVNE. Þar sem vínið fékk mjög góðar viðtökur ákváðu bræðurnir að halda þessari skammstöfun óbreyttri og þess vegna stendur enn CUNE á flöskumiðanum í dag.

CVNE er nokkuð stórt fyrirtæki, a.m.k. á mælikvarða spænskrar víngerðar. Fyrirtækið á um 545 hektara af vínekrum, en vínekrurnar sjá CVNE þó aðeins fyrir helmingi framleiðslunnar. Hinn helmingurinn kemur úr aðkeyptum þrúgum. Ársframleiðslan er um 4-5 milljónir flaskna (magnið ræðst af gæðum hvers árgangs).

Imperial er rekið sem sjálfstætt vínhús innan CVNE-samsteypunnar. Það ræður yfir eigin vínekrum, alls um 28 hektarar í Rioja Alta. Öll vín Imperial eru gerjuð og þroskuð í frönskum eikarámum. Vínin eru gerð sem Reserva og Gran Reserva, en auk þeirra er gert Real de Asúa úr þrúgum af bestu vínekrunum. Imperial gerir eitt hvívín – Corona Gran Reserva – sem er hálfsætt vín úr þrúgunni Viura sem hafa fengið á sig eðalmyglu (Botrytis cinerea). Hvítvínið er aðeins gert í mjög góðum árgöngum.

Nafnið Imperial er tilkomið þar sem þessi vín voru upphaflega gerð til útflutning til Bretlands. Vínin voru þá sett á flöskur sem eru um 570 ml að stærð, en slík eining kallast Imperial pint.

Vín dagsins

Eins og kemur fram hér að ofan þá koma þrúgurnar í þetta vín af vínekrum Imperial í Rioja Alta. Þrúgurnar eru að stærstum hluta Tempranillo (85%) en afgangurinn er Graciano, Mazuelo og Garnacha (alls um 15%). Að lokinni gerjun í stórum eikarámum (8.000 – 16.000 lítrar) var vínið látið þroskast í 24 mánuði í frönskum eikartunnum. Alls voru gerðar um 150.000 flöskur af þessum árgangi.

CVNE Imperial Reserva 2018 hefur djúpan kirsuberjan rauðan lit. Í nefinu er þéttur ilmur af plómum, kirsuberjum, sólberjum, vanillu, kryddum og eik. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, góða fyllingu og þétt tannín. Í eftirbragðinu, sem er þétt og heldur sér nokkuð lengi, má finna kirsuber, sólber, rifsber, kaffi, leður, anís, plómur, vanillu og eik. 93 stig. Góð kaup (4.999 kr). Drekkist á næstu 7-10 árum, gjarnan með kjötréttum hvers konar (grilluðum), spænskum pylsum og ostum.

Robert Parker gefur þessu víni 94 stig en Wine Spectator gefur því 91 stig. Notendur Vivino gefa þessum árgangi 4,2 stjörnur (1.537 umsagnir þegar þetta er skrifað).

CVNE Imperial Reserva 2018
Góð kaup
CVNE Imperial Reserva 2018 fer vel með kjötréttum hvers konar (grilluðum), spænskum pylsum og ostum.
4.5
93 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook