Vínhús Camille Giroud var stofnað árið 1865 þegar hinn svissneski Camille Giroud flutti til Beaune í Bourgogne og kvæntist ungfrú Deschamps. Deschamps kom úr fjölskyldu tunnusmiða og vínkaupmanna í Beaune. Camille tók við rekstri litla fjölskyldufyrirtækisins og breytti nafni þess í Maison Giroud Deschamps. Árið 1903 var nafninu svo breytt í Maison Camille Giroud.
Lengst af keypti Camille Giroud eingöngu vín sem búið var að gerja og valdi sérstaklega vín sem hann taldi henta til langrar geymslu. Vínin voru geymd í minnst 7 ár á eikartunnum áður en þau fóru á flösku. Slík vín voru aðalsmerki Camille Giroud og hann safnaði gríðarlegum birgðum af vínum í vínkjallara fyrirtækisins. Smátt og smátt fór þetta þó að hafa neikvæð áhrif á reksturinn. Hagnaðurinn minnkaði með hverju ári á meðan birgðirnar jukust.
Að lokum fór svo að breytt var um áherslur í starfsemi Maison Camille Giroud. Í stað þess að kaupa vín til geymslu fóru Bernard og François Giroud, barnabörn Camille, að kaupa þrúgur og gera vínin sjálfir. Árið 1993 eignaðist vínhúsið sínar fyrstu vínekrur í Beaune. Þessi áherslubreyting dugði þó ekki til að rétta af reksturinn og að lokum tóku bræðurnir þá ákvörðun að selja fyrirtækið. Nýju eigendurnir, Ann Colgin og Joe Wender (sem eiga Colgin Cellars í Napa Valley) styrktu innviðina og efldu framleiðsluna verulega.
Þegar fyrirtækið var selt árið 2001 voru um 300.000 flöskur í vínkjallaranum, þær elstu frá 1937.
Í dag gerir vínhús Maison Camille Giroud 12 hvítvín (þar af 2 premier cru og 1 grand cru )og 31 rauðvín (14 premier cru og 5 grand cru). Flest þessara vína er að finna í verslun Sante.is.
Vín dagsins.
Þrúgurnar í þessu víni (Chardonnay) koma af vínekrum sem kallast Les Hautées og La Macabrée við þorpið Auxey-Duresses. Vínviðurinn er um 50 ára gamall. Að lokinni gerjun er vínið geymt í notuðum eikartunnum í 12 mánuði og svo 6 mánuði í stáltönkum áður en það er sett á flöskur. Þetta er augljóslega mikil breyting frá því sem áður var þegar vínin voru geymd í a.m.k. 7 ár á eikartunnum!
Camille Giroud Auxey-Duresses 2020 hefur fölgulan lit og smjörkenndan ilm af eplum, sítrínum, ristuðu brauði, apríkósum, perum og grösum. Í munni hefur vínið ríflega miðlungs sýru og miðlungs fyllingu. Smjörkennt en frísklegt eftirbragðið heldur sér nokkuð lengi. 93 stig. Mjög góð kaup (4.900 kr). Fer vel með ljósu fuglakjöti, feitum fiski og hvítmygluostum.
Meðaleinkunn vínsins á Vivino er 4,1 stjarna (of fáar umsagnir fyrir hvern árgang þegar þetta er skrifað).