La Rioja Alta Viña Alberdi Reserva 2019

Vínhús La Rioja Alta er með eldri og virtari vínhúsum Rioja-héraðs á Spáni. Saga þess hófst árið 1890 þegar fimm fjölskyldur frá Rioja og Baskalandi tóku sig saman og stofnuðu vínhúsið Sociedad Vinícola de La Rioja Alta. Ég hef áður fjallað um vínhúsið hér og hér (og reyndar í fleiri færslum) og því óþarfi að fjölyrða mikið meira um þetta ágæta vínhús sem flestir íslenskir vínunnendur ættu að kannast vel við.

Mörg af vínum La Rioja Alta fá mun lengri þroskatíma en reglur Rioja kveða á um. Þannig fær flaggskipið þeirra, Gran Reserva 890, að liggja í 6 ár á nýjum eikartunnum áður en það fer á flöskur, og það líða svo 6 ár til viðbótar áður en vínið fer í sölu. La Rioja Alta er líka eitt af fáum vínhúsum í Rioja sem smíðar sínar eigin eikartunnur.

Vín dagsins

La Rioja Alta gerir tvö Reserva-vín – Viña Ardanza og svo vínið sem hér um ræðir, Viña Alberdi. Vínið er eingöngu gert úr Tempranillo-þrúgum (flest önnur vín La Rioja Alta innihalda eitthvað af Graciano, Garnacha og/eða Mazuelo). Á Spáni er þetta vín selt sem Crianza en annars staðar er það selt sem Reserva. Þetta vín má reyndar einnig finna sem „Rioja Bikana“ en það er aðeins selt í Haro í Rioja.

2019 var ákaflega gott ár í Rioja og flest vín vel yfir meðallagi að gæðum. Þrúgurnar sem fóru í þetta voru allar handtíndar og svo gerjaðar í stáltönkum. Vínið var þá sett í tunnur úr amerískri eik. Fyrsta árið lá vínið á nýjum tunnum en voru síðan færðar yfir í 4 ára gamlar tunnur það sem þá lá eitt ár til viðbótar. Vínið var svo sett á flöskur í maí 2022.

La Rioja Alta Viña Alberdi Reserva 2019 hefur ríflega miðlungsdjúpan rústrauðan lit. Í nefinu er þéttur og góður ilmur af kirsuberjum, rifsberjum, plómum, kakó, tóbaki, vanillu, lakkrís, kanel, negul, myntu og ferskum kryddjurtum. Í munni er vínið sýruríkt, með ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er þétt og gott, með kirsuberjum, jarðarberjum, hindberjum og balsamic. 92 stig. Frábær kaup (3.999 kr). Þetta vín steinlá með grilluðu ribeye og fer eflaust vel með öðrum grillmat, spænskri skinku og þéttum ostum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (1339 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur þessu víni 91 stig, James Suckling gefur 92 stig og Tim Atkin gefur því einnig 92 stig.

La Rioja Alta Viña Alberdi Reserva 2019
Frábær kaup
La Rioja Alta Viña Alberdi Reserva 2019 steinlá með grilluðu ribeye og fer eflaust vel með öðrum grillmat, spænskri skinku og þéttum ostum.
5
92 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook