Bread & Butter Pinot Noir 2021

Vínhúsið Bread & Butter fylgir þeirri stefnu að lífið eigi að vera einfalt. Það er ekki verið að flækja hlutina of mikið í víngerðinni og vínin endurspegla þessa fílósófíu. Fyrstu vínin frá Bread & Butter eru frá 2011 og voru í upphafi einföld hvers dags vín – ekki of flókin. Síðan hefur framleiðslan undið upp á sig og nú eru gerð vín í fjórum mismunandi línum – frá „Everyday wines“ yfir í „Cellar Selection.“

Í hversdags línu Bread & Butter er nú að finna 10 mismunandi vín, 9 frá Kaliforníu og einnig Prosecco frá Ítalíu. Vínin í hversdags línunni flokkast sem vín frá Kaliforníu, sem þýðir að þrúgurnar sem í þau fara geta komið frá hvaða vínekru sem er í Kaliforníu.

Í Vínbúðunum eru nú fáanleg tvö vín frá Bread & Butter – Pinot Noir og Chardonnay.

Vín dagsins

Vín dagsins er hreint Pinot Noir frá Kaliforníu, sem að lokinni gerjun fær að hvíla um stund í tunnum úr amerískri og franskri eik.

Bread & Butter Pinot Noir 2021 hefur kirsuberjarauðan lit og miðlungs dýpt. Í nefinu er blómlegur kirsuberjailmur ásamt hindberjum, kakó, kóla, perum, jarðarberjum, vanillu og smá eik. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og tæplega miðlungs tannín. Eftirbragðið heldur sér þokkalega, og það má finna jarðarber, hindber, vanillu, krydd, kakó og smá eik. 89 stig. Mjög góð kaup (3.499 kr). Fer vel með andabringum, sveppum, grilluð grænmeti og kjöti hvers konar.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (11.188 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Bread & Butter Pinot Noir 2021
Mjög góð kaup
Bread & Butter Pinot Noir 2021 fer vel með andabringum, sveppum, grilluð grænmeti og kjöti hvers konar.
4
89 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook