Flestir kannast við Pinot Noir og Pinot Gris (einnig kölluð Pinot Grigio), en það hefur ekki farið mikið fyrir Pinot Blanc í Vínbúðunum. Þegar vefur Vínbúðanna er skoðaður má finna fjögur vín úr Pinot Blanc, á meðan vín úr hinum hvítu Pinot-þrúgunum eru rúmlega 60.
Líkt og hinar hvítu Pinot-þrúgurnar þá er Pinot Blanc afsprengi Pinot Noir (líkt og svo margar aðrar þrúgur). Vínin úr Pinot Blanc eru ekkert ólík Chardonnay, með góða sýru, miðlungs fyllingu og líður vel í eikartunnum. Algengt er að finna epla- og möndlukeim í vínum úr Pinot Blanc. Pinot Blanc er hægt að nota í þurr og sæt hvítvín, og einnig í freyðivín.
Þekktustu heimkynni Pinot Blanc eru í Alsace í Frakklandi, þó hún falli nokkuð í skuggann af hinum stjörnum Alsace – Riesling og Gewurztraminer. Pinot Blanc er einnig að finna í Búrgúndí og í Champagne (þar er þrúgan líka kölluð Blanc Vrai), í Þýskalandi og Austurríki (þar kallast hún líka Weissburgunder og Klevner) og á Ítalíu (þar sem hún kallast Pinot Bianco).
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá meistaranum í Mosel – Markus Molitor. Molitor er frægur fyrir Riesling-vínin sín sem flest eru í sérflokki. Molitor fékk á sínum tíma gælunafnið „herra 300 punktar“ þegar þrjú vín frá honum fengu 100 stig á sama tíma hjá Robert Parker. Á hverju ári sendir Markus Molitor frá sér um 100 mismunandi vín – allt frá þurrum hvítvínum yfir í sæt, frá rósavíni yfir í rauðvín ásamt bæði þurrum og sætum freyðivínum. Molitor notar eigin gæðaflokkun yfir vínin sín, þar sem betri vínin eru merkt með 1-3 stjörnum (þar sem 3 stjörnu vínin eru auðvitað þau bestu).
Vínið sem hér um ræðir er 100% Pinot Blanc frá Klosterberg-vínekrunni við þorpið Wehlen í Mósel-dalnum. Þrúgurnar koma af elsta vínviðnum á vínekrunni, og að lokinni gerjun er vínið geymt í 10 mánuði á frönskum eikartunnum.
Markus Molitor Pinot Blanc Wehlener Klosterberg *** 2018 hefur miðlungs-djúpan sítrónugulan lit, með þétta ilm af eplum, möndlum, sítónum, sítrónuberki, cantaloupe-melónum, smjör, seltu og ylliblómum. Vínið er þurrt, fágað, með ríflega miðlungs sýru og miðlungs fyllingu. Eftirbragðið er langt og flókið. 95 stig. Frábært vín. Frábært eitt og sér en einnig gott með hvítmygluostum, fuglakjöti og léttum asískum réttum. Vínið er gott núna en þolir geymslu í a.m.k. 10-15 ár til viðbótar.
Robert Parker gefur þessu víni 96 stig.