Vínhús La Chablisienne var stofnað árið 1923, þegar vínbændur í Chablis stofnuðu samvinnufélag til að hjálpast að í gegnum þær efnahagsþrengingar sem þá áttu sér stað. Í fyrstu sáu vínbændurnir sjálfir um að gera sín vín en La Chablisienne sá um að blanda vínin og dreifa þeim áfram til heildsala. Á sjötta áratug síðustu aldar fór La Chablisienne að taka við ógerjuðum safanum og annast allt víngerðarferlið, og þannig er það enn í dag.
Jarðvegurinn í Chablis er mjög kalkríkur. Þarna er þykkt lag af steingerðum ostrum og skelfiski, því þarna var einu sinni sjávarbotn. Þessi einstaki jarðvegur hefur áhrif á þrúgurnar sem þarna vaxa og vín frá Chablis hafa einkennandi steinefnabragð
Vín dagsins
Vín dagsins er gert úr þrúgum sem vaxa á vínekrum meðfram ánni Sereine. Sereine rennur í gegnum hjarta Chablis og endar að lokum í ánni Yonne, sem síðar rennur út í Signu. Líkt öll vín sem kennd eru við Chablis þá er hér um að ræða hreint Chardonnay, Að lokinni gerjun og malólaktískri umbreytingu er vínið geymt í 12 mánuði, að hluta í stáltönkum og að hluta í eikartunnum. Lokablöndun á sér svo stað fyrir átöppun á flöskur.
La Chablisienne La Sereine Chablis 2019 hefur miðlungsdjúpan sítrónugulan lit, með ljúfri og smjörkenndri angan af grænum eplum, sítrónum, perum, greipaldini, kalki, steinefnum, vanillu, melón, hunangi og sítrónuberki. Vínið er þurrt, með ríflega miðlungssýru og tæplega miðlungs fyllingu. Eftirbragðið heldur sér ágætlega og þar má finna epli, perur, sítrónur, greipaldi, steinefni, vanillu og smjör. 89 stig. Ágæt kaup (3.999 kr). Fer vel með ljósu fuglakjöti, fiskréttum, skelfiski og salatréttum. Vínið hentar ekki til lengri geymslu.
Notendur Vivino gefa þessu víni að meðaltali 3,9 stjörnur (594 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Enthusiast gefur því 89 stig, Decanter gefur 90 stig og James Suckling gefur 90 stig.