R. López de Heredia Viña Cubillo Crianza 2016

Vínhús R. López de Heredia er eitt af elstu og virtustu vínhúsum Rioja, stofnað árið 1877. Stolt vínhússins er Tondonia vínekran, sem hefur verið slíkur burðarás í velgengni fyrirtækisins að nafninu hefur verið bætt inn í heiti fyrirtækisins. Tondonia-vínekran er um 100 hektarar að flatarmáli. Jarðvegurinn þar er kalkríkur leir sem hentar vel fyrir Tempranillo og Garnacha. Öll bestu vín R. López de Heredia koma af Tondonia-vínekrunni.

Vínin frá R. López de Heredia fylgja klassískum hefðum Rioja. Vínin eru geymd nokkuð lengi á eikartunnum – yfirleitt mun lengur en reglur Roija kveða á um. Flaggskipið, Viña Tondonia Gran Reserva er geymt í 10 ár á tunnum áður en það fer á flöskur (reglur Rioja segja minnst 2 ár í tunnum og alls 5 ára geymslutími). Reserva-vínið er geymt í 6 ár á eikartunnum (reglurnar segja lágmark 1 ár á tunnu og 3 ár alls).

Frá Viña Tondonia koma einnig hvítvín – Gran Reserva og Reserva – sem eru geymd jafn lengi í eikartunnum og rauðvínin. Þá gerir Viña Tondonia einnig Gran Reserva rósavín sem er geymt í fjögur og hálft ár á eikartunnum, en það eru afar fá rósavín í heiminum sem fá slíka meðferð.

R. López de Heredia á þrjár aðrar vínekrur í Rioja Alta héarðinu – Viña Cubillo, Bosconia og Zaconia. Á Zaconia eru ræktaðar hvítar þrúgur (mest Viura) sem eru notaðar í hvítvín sem kallast Viña Gravonia. Áður fyrr voru einnig gerð sætvín sem voru kölluð Sauternia!

Af Viña Bosconia og Viña Cubillo koma samnefnd rauðvín. Viña Bosconia er gert sem Reserva og Gran Reserva, en Viña Cubillo – vín dagsins – er Crianza.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur af Viña Cubillo-vínekrunni. Það er að uppstöðu gert úr þrúgunni Tempranillo (65%) og Garnacho (25) en í því er einnig að finna Mazuelo (Carignan) og Graciano. Að lokinni gerjun er vínið geymt í 3 ár á eikartunnum áður en það fer á flöskur. Það fær svo 4 ár til viðbótar í kjallara R. López de Heredia áður en það fer í sölu. Árgangurinn sem hér um ræðir – 2016 – er nýjasti árgangurinn í sölu.

R. López de Heredia Viña Cubillo Crianza 2016 hefur djúpan rúbinrauðan lit og þéttan ilm af kirsuberjum, plómum, hindberjum, leðri, vanillu, eik, sólberjum , súkkulaði, kókóshnetum, kanil og negul. Í munni er vínið þurrt og sýruríkt, með þétt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér nokkuð lengi og þar má finna kirsuber, plómur, hindber, leður, vanillu, eik, súkkulaði og kókós. 93 stig. Frábær kaup (4.444 kr). Steinliggur með góðri steik (naut, villibráð, lamb), spænskum pylsum og hörðum ostum. Þó þetta sé 8 ára gamalt Crianza þá er það enn unglegt og þolir vel a.m.k. 5-7 ára geymslu til viðbótar.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (391 umsögn þegar þetta er skrifað). Tim Atkin gefur því 94 stig, Robert Parker gefur einnig 94 stig. Wine Spectator gefur því 90 stig.

R. López de Heredia Viña Cubillo Crianza 2016
Frábær kaup!
R. López de Heredia Viña Cubillo Crianza 2016 steinliggur með góðri steik (naut, villibráð, lamb), spænskum pylsum og hörðum ostum.
4.5
93 stig
Hvar fæst vínið?

Vinir á Facebook