Vínklúbburinn minn hélt apríl-fund sinn á dögunum (reyndar í byrjun maí) og líkt og venjulega var fundarefnið spennandi og áhugaverð vín. Þema kvöldsins var tvískipt – fyrst var hitað upp með 3 Tokaji-vínum frá Ungverjalandi en síðan fórum við yfir Pinot Noir frá Nýja heiminum.
Gestgjafinn byrjaði á að bjóða upp á 3 sætvín frá Royal Tokaji. Royal Tokaji er til þess að gera ungt vínhús, stofnað 1990 af Hugh Johnson og félögum hans. Hugh Johnson er einn þekktasti vínskríbent samtímans og metsöluhöfundur vínbóka. Hann taldi svæðið ekki vera að njóta sín að fullu og fékk til liðs við sig fjárfesta og víngerðarmenn og stofnaði Royal Tokaji, sem í dag er eitt þekktasta vínhúsið í Tokaj. (Til upplýsingar má benda á lítið smáatriði – héraðið heitir Tokaj en vínin heita Tokaji)
Frábær þrenna frá Royal Tokaji
Fyrst smökkuðum við Royal Tokaji Aszú 5 Puttonyos 2017 – rafgullið vín með dásamlegum ilm af hunangi, apríkósum, villiblómum, eplum og ferskjum. Í munni er vínið sætt (enda sykurmagnið 158 g/L), með góða sýru og flott jafnvægi. Ristað brauð, smjördeig, appelsínumarmelaði og sítrus ráðandi í góðu eftirbragðinu. Frábært vín – 94 stig.
Næsta vín var Royal Tokaji Aszú 6 Puttonyos 2017 – aðeins ljósara en fyrsta vínið, með epli, hunang og appelsínu ráðandi í nefinu. Sætt vín (sykurmagn 189 g/L), í góðu jafnvægi og með ágæta sýru. Apríkósur, appelsína og púðursykur í góðu eftirbragðinu. Mjög gott vín sem vakti þó ekki sömu hrifningu og fyrsta vínið – 90 stig.
Síðasta sætvínið var Royal Tokaji Aszú Nykulászó 6 Puttonyos 2017 sem er einnar-ekru vín (single-vineyard) og aðeins gert þegar árgangurinn er góður (að meðaltali 3-4 sinnum á hverjum áratug). Vínið hefur ljósan rafgullin lit, með indælan ilm af hunangi, apríkósum, ferkjum og smá hvítum pipar. Í munni er vínið sætt (sykurmagn 203 g/L), með ágæta sýru og gott jafnvægi. Ferskjur, klementínur og hunang ráðandi í góðu eftirbragðinu. Mjög gott vín – 93 stig.
Þegar hér var komið við sögu var ljóst að miðaldra bragðlaukar meðlima Vínklúbbsins myndu varla ráða við fleiri sætvín. Gestgjafinn var auðvitað búinn að sjá það fyrir og fór nú með gestina á kunnuglegri slóðir.
Spennandi Pinor Noir
Fyrsta rauðvín kvöldins var Morandé Seleccion de Vinedos Gran Reserva Pinot Noir 2021. Vínið hafði ryðbrúna rönd, ljósrautt með ágæta dýpt og virtist nokkuð þroskað. Í nefinu voru tóbak, apótekaralakkrís, súkkulaði, krydd og möndlur. Í munni var vínið flatt, með miðlungs tannín en góða sýru. Tóbak og málmur í eftirbragðinu, lítill ávöxtur (gallað?). 85 stig. 2.999 kr. í Vínbúðunum.
Næst kom Villa Maria Reserve Pinot Noir 2020 frá Marlborough á Nýja-Sjálandi. Vínið hafði ljósrauðan lit, ágæta dýpt og sýndi smá þroskamerki. Í nefinu er rauður ávöxtur, jarðarber, tóbak, frönsk eik, pipar, anís og eplahýði. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og miðlungs tannín. Rauðir ávextir, eik, marsípan og pipar í góðu eftirbragðinu. Þetta vín vakti meiri hrifiningu en fyrsta vínið og fékk 89 stig (4.625 kr. í Vínbúðunum).
Þá færðum við okkur yfir til Bandaríkjanna. Næsta vín var Calera Pinot Noir 2021 frá Central Coast í Kaliforníu. Vínið hefur ljósan rúbínrauðan lit, talsverða dýpt og ágætis þroska. Í nefinu eru brómber, jarðarber, hindber, súkkulaði, ristað brauð, eik, vanilla og krydd. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, ágæta fyllingu og miðlungs tannín. Kryddað eftirbragð með rauðum berjum, eik, vanillu og smá saltkaramellu. Vínið fékk 93 stig og þótti ágæt kaup (5.677 kr í Vínbúðunum).
Sjöunda vín kvöldins var Calera Ryan Vineyard Pinot Noir 2019, einnar ekru vín frá Mt. Harlan, sem er eitt hæsta, svalasta og þurrasta vínræktarhérað Kaliforníu. Vínið hefur fallegan rúbínrauðan lit, talsverða dýpt og ágætan þroska. Í nefinu eru rauðir jarðarber, hindber, mandarínubörkur, súkkulaði, karamella, vanilla og áberandi eikartónar. Vínið er þurrt, með góða sýru, miðlungs tannín og nokkuð góða fyllingu. Þétt og gott eftirbragð með rauðum ávöxtum, kryddum og eik. Vínið vakti mikla lukku og fékk 95 stig (kostar 8.909 kr í Vínbúðunum).
Áttunda vínið var einnig amerískt – RoseRock Pinot Noir 2021 frá Eola-Amity Hills í Oregon. Vínið hafði djúprauðan lit, góða dýpt og var nokkuð unglegt að sjá. Í nefinu var nokkuð sætur ilmur af jarðarberjum, eik, tóbaki, súkkulaði og heslihnetum. Í munni var vínið þurrt, með góða sýru, miðlungs tannín og ágæta fyllingu. Þétt og gott, en um leið mjúkt eftirbragð með tóbaki, súkkulaði, rauðum ávöxtum og eik. Vínið fékk 93 stig (6.994 kr í Vínbúðunum).
Níunda og síðasta vín kvöldins var einnig Pinot Noir, en að þessu sinni frá Gamla heiminum. Louis Jadot Nuits-Saint-Georges Les Boudots Premier Cru 2011 hafði rauðbrúnan lit og virtist vel þroskað. Í nefinu voru útihús, eik, kirsuber, reykur og rabarbarasulta (hangikjöt og öskubakki voru einnig nefnd til sögunnar!). Í munni var vínið þurrt, með ágæta sýru og miðlungs fyllingu. Í mjúku eftirbragðinu mátti greina tóbak, púðursykur, rabarbara og reyk. Eflaust gott villibráðarvín. Vínið fékk 95 stig (11.999 kr í Vínbúðunum).
Frábær fundur í alla staði!