Meira um umbúðir

Fyrir skömmu var ég að hlusta á hlaðvarpið Wine Blast, sem hjónin Suzie og Peter settu af stað þegar COVID skall á. Þau hjónin eru bæði Master of Wine og segja á skemmtilegan hátt frá ýmsu sem snýr að vínum. Þessi tiltekni þáttur fjallaði um áhrif ljóss og birtu á vín. Í þættinum var m.a. rætt við vísindamennina Panagiotis Arapitsas, sem starfar við Univeristy of West Attica í Grikklandi. Arapitsas og félagar gerðu rannsókn á áhrifum sólarljóss og flúrskins á hvítvín í glærum flöskum .

Það er löngu búið að sýna fram á að glært gler hleypir meira af ljósi í gegn en litað gler, einkum útfjólubláu ljósi. Rannsókn Arapitsas og félaga sneri að efnafræðilegum breytingum sem verða á víni þegar það er útsett fyrir sólarljósi og/eða flúrskini sem er algengasta lýsingin í verslunum. Í rannsókninni voru vínin skoðuð með gasskiljun og skoðað hvaða breytingar áttu sér stað þegar vínin voru útsett fyrir ljósi.

Sláandi niðurstöður

Eftir 2 daga voru mælanlegar breytingar á terpenum, esterum og fleiri efnum sem eru hluti af lykt og bragði vínsins. Breytingarnar voru meiri eftir því sem vínin fengu lengri tíma í ljósinu. Til samanburðar voru skoðuð vín í lituðum glerflöskum sem höfðu verið útsettar fyrir ljósi á sama hátt og jafn lengi og glæru flöskurnar. Pinot Gris hafði eftir 1 viku misst jafnmikið (66%) af mikilvægum efnum og Pinot Gris í lituðum flöskum misstu á 7 vikum. Chardonnay í glærum flöskum missti 34% af þessum sömu efnum á einni viku, sambærilegt við Chardonnay í lituðum flöskum missti á 7 vikum. Þrúgurnar voru misjafnlega viðkvæmar fyrir þessum ljósáhrifum – Pinot Gris var viðkvæmust en Gewurztraminer þoldi áhrifin betur.

Í hlaðvarpinu gerðu Suzie og Peter sína eigin útgáfu af tilrauninni. Þau keyptu rósavín sem var í grænni flösku, þar sem tveimur flöskum var umhellt yfir í glærar flöskur sem síðan fengu að standa í 4 daga annars vegar úti í glugga og hins vegar í flúrskini. Suzie blindsmakkaði svo vínin og var ekki lengi að greina vínin sem höfðu verið útsett fyrir ljósi.

Nú gæti einhver sagt að umhellingun hafi haft áhrif á vínin og þar með útkomu tilraunarinnar. Ég ákvað því að gera eigin tilraun og skoða þessi áhrif.

Tilraunin

Viðfangsefni minnar tilraunar voru eitt rósavín og eitt hvítvín í glærum glerflöskum, tvær flöskur af hvoru víni þar sem önnur flaskan hafði staðið uppi í hillu um nokkurt skeið en hin flaskan var tekin beint upp úr kassa og þess gætt að ekkert ljós komist að flöskunum sem komu úr kassanum. Flöskurnar úr hillunum voru setta út í glugga þar sem þær voru útsettar fyrir dagsbirtu í 4 daga. Þá var öllum flöskunum pakkað inn í álpappír (flöskurnar í glugganum voru merktar fyrir pökkum) og þær færðar til smökkunar. Við smökkunina naut ég aðstoðar tveggja vanra smakkara og þriggja óvanra.

Niðurstaðan var að það var áberandi munur á þessum flöskum hvað varðar lykt og bragð. Nú má vissulega gagnrýna þessa uppsetningu á því að mikill munur var á birtunni sem vínin höfðu verið útsett fyrir. Það er hins vegar þannig að vín standa mislengi í hillum verslana og samkvæmt þessum tilraunum er líklegt að vín sem hefur fengið að standa lengi í hillu er líklegra til að valda vonbrigðum í samanburði við vín sem ekki hefur staðið í birtunni. Til að kanna þessi áhrif betur hef ég fullan hug á að endurtaka þessa tilraun síðar! Fram að því ætla ég að halda mig við lituð gler…

Vinir á Facebook