Gróðurhúsaáhrif valda vínbændum áhyggjum víða um heim. Viðbrögðin eru margvísleg – sums staðar horfa menn á aðrar þrúgur sem henta hækkandi hitastigi, sumir láta vínviðinn vaxa á annan hátt en venja er. Glerflöskur hafa verið ráðandi í umbúðum undanfarin árhundruð, en fleiri framleiðendur eru nú farnir að skoða aðra möguleika. Glerflöskur eru þungar og dýrar í flutningi, og því er nú algengara að sjá vín í dósum, léttgleri og í kössum.
Vínið sem hér er fjallað um kemur í „flöskum“ sem eru í raun alveg eins og „beljurnar“ sem við þekkjum svo vel. „Flaskan“ inniheldur þó bara 750 ml líkt og venjulegar flöskur. Þegar innihaldið hefur verið tæmt úr er innri plastpokinn fjarlægður úr pappaumbúðunum og þetta fer svo í viðeigandi endurvinnslutunnur. Kolefnisspor þessara umbúða er víst ekki nema um 1/6 – 1/10 hluti af kolefnisspori dæmigerðrar glerflösku.
Þessar umbúðir, líkt og „beljurnar“ og áldósirnar, henta vel fyrir vín sem ekki eru ætluð til langrar geymslu og eiga að drekkast ung.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Pugliu, sem er hællinn á ítalska stígvélinu. Það er gert úr þrúgunni Primitivo, sem er ræktuð víða á Suður-Ítalíu (í bandaríkjunum er þessi sama þrúga betur þekkt sem Zinfandel).
When in Rome Primitivo (án árangs) hefur nokkuð þéttan rúbínrauðan lit. Í nefinu eru kirsuber, bláber, plómur, kakó og fjólur. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru, ágæt tannín og ágæta fyllingu. Eftirbragðið er nokkuð einfalt og þar má finna kirsuber, plómur, bláber, fjólur kryddjurtir. 86 stig. Góð kaup (2.889 kr). Fer vel með pasta, pizzu, hamborgurum, grillmat og skinkum. Tilvalið í útileguna!
Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur þessu víni 3,5 stjörnur. Notendur Vivino gefa þessu víni 3,3 stjörnur (aðeins 64 umsagnir þegar þetta er skrifað).