Domaine Nico Pinot Noir La Savante 2018

Pinot Noir er líklega ein þekktasta rauða þrúgan. Hún er undirstaðan í Búrgúndarvínum, sem í augum margra vínunnenda eru fremst allra vína. Þrúgan gefur yfirleitt af sér létt og fáguð vín með góðum ávaxtatónum, en hún getur líka gefið af sér kröftug og flókin vín (sérstaklega í Búrgúndí). Pinot Noir er víst ekkert sérstaklega auðveld í ræktun. Hún þrífst best í svölu loftslagi, en á svalari svæðum er oft meiri raki og þar sem þrúgan hefur þunnt hýði er hún viðkvæm fyrir myglusveppum.

Eitt af þeim svæðum sem virðist henta Pinot Noir vel er Mendoza-héraði í Argentínu. Efstu vínekrurnar í Mendoza eru í yfir 1.500 metra hæð yfir sjávarmáli og þar er nægilega svalt fyrir Pinot Noir.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá Domaine Nico (sjá umfjöllun hér), af vínekru sem kallast La Savante og er staðsett í Gualtallary í Tupungato. Vínekrar er í 1.450 metra hæð yfir sjávarmál og er um 1,5 hektari að stærð. Að lokinni gerjun var vínið látið liggja í 18 mánuði á tunnum úr franskri eik (10% nýjar tunnur, 90% höfðu verið notaðar einu sinni áður). Alls voru gerðar 5.953 flöskur af þessu víni.

Domaine Nico Pinot Noir La Savante 2018 hefur miðlungsdjúpan rúbínrauðan lit. Í nefinu eru kirsuber, trönuber, hindber, tóbak, fjólur, rauðar plómur, eik, kakó og leður. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með silkimjúk tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið heldur sér vel og lengi, og þar má finna kirsuber, jarðarber, hindber, tóbak, plómur, kakó, negul, eik og leður. 94 stig. Frábær kaup (6.290 kr – ath. fæst aðeins á Finvin.is). Vínið fór ákaflega vel með chuck flap steik úr Sælkerabúðinni, en myndi einnig sóma sér vel með lambakjöti og léttari villibráð.

James Suckling gefur þessu víni 95 stig, Robert Parker gefur 95 stig og Tim Atkin gefur því 94 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,2 stjörnur (218 umsagnir þegar þetta er skrifað)

Domaine Nico Pinot Noir La Savante 2018
Frábær kaup
Domaine Nico Pinot Noir La Savante 2018 er frábært vín sem fer vel með lambakjöti, nauti og léttari villibráð.
5
94 stig

Vinir á Facebook