Furmint

Alþjóðlegi Furmint-dagurinn er í dag, 1. febrúar. Í dag er reyndar líka dagur dökks súkkulaðis og alþjóðlegi bjartsýnisdagurinn, en við látum það liggja á milli hluta. Ég er nokkuð viss um að margir lesendur Vínsíðunnar séu ekki alveg með Furmint á hreinu, en fleiri kannast líklega við Tokaji-sætvínin frá Ungverjalandi. Furmint er nefnilega aðalþrúgan í þessum dásamlegu vínum.

Furmint er mest ræktuð í Tokaj-héraðinu í Ungverjalandi. Þar er hún notuð í bæði þurr og sæt hvítvín. Tokaj-héraðið var hluti af ungverska konungsdæminu sem á hátindi sínum náði yfir það sem nú er Ungverjaland, Slóvakía og Transylvanía, ásamt hluta af Rúmeníu, Úkraínu, Serbíu, Króatíu og Austurríki. Konungdæmið leið í raun undir lok um miðja 19. öld þegar það varð hluti af Austurrísk-Ungverska konungdæminu. Árið 1920 var ungverska konungsdæminu skipt upp (Trianon-sáttmálinn) og Ungverjaland missti rúmlega tvo þriðju hluta landsvæðis síns. Tokaj, sem lengi hafði verið eitt þekktast vínhérað Evrópu, lenti að mestu leyti innan Ungverjalands, en lítill hluti þess endaði innan landamæra Tékkóslóvakíu, nú Slóvakíu. Í dag eru vínekrur í Slóvaíska hluta Tokaj um 175 hektarar, en í Ungverska hluta Tokaj eru um 4.000 hektarar af vínekrum. Tokaj-vín geta því bæði komið frá Ungverjalandi og frá Slóvakíu (athugið að héraðið heitir Tokaj, en vínin Tokaji).

Sætvín

Furmint-þrúgan er hvít og með þunnt hýði. Hún er viðkvæm fyrir Botrytis Cinerea-myglusveppinum sem getur lagst á þrúgur. Í Tokaj er nokkuð rakt loftslag og því góðar aðstæður fyrir myglusveppinn. Það þykir þó ekki slæmt að þessi myglusveppur leggist á þrúgurnar, því þessi mygla er kölluð „eðalmygla“ (e. „Noble rot“). Myglan þurrkar þrúguna, sem fyrir vikið inniheldur mjög mikinn sykur. Sykurinn í þrúgusafanum er það mikill að gersveppirnir ná ekki að gerja hann allan áður en þeir drepast áfengisdauða, og vínin verða því sæt á bragðið. Sveppurinn hefur líka áhrif á bragð vínanna (mjög góð áhrif!).

Tokaj-sætvínin voru stolt Ungverskrar víngerðar fyrr á öldum, og eftirsótt á veisluborðum kóngafólks í Evrópu. Á tímum kommúnismans varð mikil afturför í víngerð í Tokaj, enda mest áhersla lögð á magn en ekki gæði í vínhéruðum austan Járntjaldsins. Við fall kommúnismans gátu vínbændur í Tokaj aftur farið að leggja meiri áherslu á gæðin og Tokaji-vínin eru óðum að ná fyrri frægð.

Þurr vín

Það er til þess að gera stutt síðan þurr hvítvín úr Furmint fóru að líta dagsins ljós á Vesturlöndum. Líklega hefur eitthvað verið gert af þurrum vínum úr Furmint á 20. öldinni en þau rötuðu almennt ekki vestur fyrir Járntjaldið. Þurru vínin eru einkum gerð í héraðinu Somló í NV-hluta Ungverjalands. Þurr Furmint frá Somló eru yfirleitt með epla- og perukeim, krydduð og steinefnarík. 

Staðan í Vínbúðunum

Því miður fást engin þurr Furmint-vín lengur í vínbúðunum (hægt að sérpanta). Hins vegar fæst það hið stórfína Disznoko Tokaji Aszu 5 Puttonyos. Það hefur hlotið fína dóma hjá vínskríbentum – Wine Spectator gefur því 93 stig, Decanter gefur 92 stig og Wine Enthusiast gefur því 96 stig! Meðaleinkunnin á Vivino eru 4,3 stjörnur (636 umsagnir þegar þetta er skrifað). Vínið kostar 6.799 krónur en það er vel þess virði að prófa. Vínklúbburinn minn smakkaði 2012-árganginn fyrir 2 árum og þar voru menn nokkuð ánægðir.

Vinir á Facebook