Muga Prado Enea Gran Reserva 2015

Fyrir rúmum 2 árum skrifaði ég um Prado Enea – stolt Bodegas Muga í Rioja. Prado Enea er Gran Reserva-vín Bodegas Muga og er, að öðrum ólöstuðum, eitt besta Gran Reserva-vínið í Rioja. Bodegas Muga hefur yfir að ráða vínekrum sem ná yfir um 420 hektara. Ársframleiðslan þeirra er um 2 milljónir vínflaskna. Grunnvínið þeirra er Reserva, sem Íslendingar þekkja vel, en Muga gerir ekkert Crianza eða Joven (yngstu vínin í Rioja). Öll víngerðin fer fram í eikartunnum – engir ryðfríir stáltankar þar á bæ!

Prado Enea er aðeins gert þegar árgangurinn er nægilega góður. Vínið var ekki gert 2012 og 2013, en það var 2014 sem ég skrifaði um síðast. Vínið var gert árin 2015 og 2016, en svo kemur næst 2019-árgangurinn, en óvíst er hvort það komi 2020-árgangur.

Muga Prado Enea Gran Reserva 2015 er gert úr þrúgunum empranillo, Grenache, Mazuelo (Carignan) og Graciano. Að lokinni gerjun er vínið geymt í 3 ár á frönskum eikartunnum, þar af eru aðeins 10% nýjar. Vínið fór svo á flöskur í nóvember 2018 og er því búið að liggja í 5 ár á flöskum. Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit og er komið með smá þroska. Í nefinu finnur maður sólber, brómber, tóbak, vanillu, eik, leður, plómur, kakó, negul, kanil og kaffi. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt með þétt en mjúk tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og þar má finna sólber, tóbak, negul, vanillu, plómur, kakó, kaffi og leður. 96 stig. Frábært vín en í dýrari kantinum (10.499 kr). Fer vel með nautakjöti, lambi, villibráð, spænskri skinku og hörðum ostum. Þetta vín er rétt að taka við sér og geymist eflaust vel næstu 15-20 árin.

Robert Parker gefur þessu víni 97 stig, Wine Enthusiast gefur því 98 stig, Tim Atkin gefur 99 stig, James Suckling gefur 95 stig og Guia Penin gefur 95 stig. Notendur Vivino gefa því 4,5 stjörnur (1809 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Muga Prado Enea Gran Reserva 2015
Frábært vín
Muga Prado Enea Gran Reserva 2015 er frábært vín sem fer vel með nautakjöti, lambi, villibráð, spænskri skinku og hörðum ostum.
5
96 stig

Vinir á Facebook