Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur. Ég vona að þið hafið átt góð áramót og óska ykkur góðs vínárs 2024. Eins og ég greindi frá í áramótapistlinum þá náði ég ekki að koma frá mér öllum þeim víndómum sem ég átti óbirta á síðsta ári. Ég ætla að reyna að koma þeim frá mér nú í upphafi árs, ásamt því að greina skilmerkilega frá öðrum vínum sem ég kemst í tæri við á næstunni.
Fyrsta vín ársins kemur frá Douro-dalnum í Portúgal, nánar tiltekið frá svæði sem heitir Cima Corgo. Cima Corgo er miðhluti Douro-vínræktarhéraðsins. Vínekrurnar eru í mjög háum og bröttum brekkum meðfram ánni Douro og hliðarám hennar. Umhirða vínekranna er erfið og dýr vegna brattans, og hér er allt unnið með höndunum. Í mesta brattanum eru vínekrurnar á mjóum syllum – socalos – sem hlaðnir steinveggir halda uppi. Hver sylla getur aðeins borið nokkrar raðir af vínvið. Veggjunum þarf að halda vel við svo þeir gefi sig ekki, og viðhaldið er dýrt (allt unnið með handafli).
Vín dagsins
Ég hef ekkert allt of miklar upplýsingar um vínhús Rocim. Það ræktar þó einnig vínvið í Dão, og fyrir skömmu fjallaði ég um hið ágæta O Estrangeiro, sem er einmitt frá Dão. Vínið sem hér um ræðir er hins vegar frá Douro og nefnt eftir plöntu sem í Portúgal er kölluð Bela Luz. Planta þessi er af varablómaætt og er skyld íslenska blóðberginu. Vínið er s.k. „field blend“, þ.e. það er gert úr þeim þrúgum sem vaxa á vínekrunni. Uppistaðan eru Touriga Franca, Touriga Nacional og Tinta Roriz, en líklega eru þarna ýmsar aðrar þrúgur. Hluti vínsins var látinn hvíla á frönskum eikartunnum í 16 mánuði, hluti á stórum amfórum úr leir, áður en það var blandað og tappað á flöskur.
Herdade do Rocim Bela Luz Vinhas Velhas Tinto 2021 hefur djúpan rúbínrauðan lit og angan af kirsuberjum, brómberjum, sólberjum, kakó, tóbaki, negul og eik. Vínið er þurrt, með ágæt tannín og góða sýru. Eftirbragðið heldur sér vel, og þar má greina kirsuber, brómber, kakó, tóbak, negul og eik. 90 stig. Ágæt kaup (5.590 kr – ath. færst aðeins á USAVIN.IS). Fer vel með nautasteik, lambakjöti, þurrkuðu kjöti/skinkum og léttari villibráð. Vínið hefur gott af 2-3 ára geymslu.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (164 umsagnir þegar þetta er skrifað). Portúgalska vínbókin Grandes Escholas gefur því 17,5/20 og Robert Parker gefur því 90 stig.