Willm Pinot Gris Réserve 2020

Þau eru ekki mörg vínin sem hægt er að para við aðalveislumat margra Íslendinga um jólin – hangikjöt og hamborgarhrygg. Það eru hins vegar fá vín sem fara betur með þessum mat en hvítvín frá Alsace. Pinot Gris er kannski ekkert sérstaklega hátt skrifað á meðal hvítvína – kannski er það vegna ódýrra Pinot Grigio sem margir þekkja frá Ítalíu? Í Alsace er löng hefð fyrir gerð vandaðra hvítvína úr Pinot Gris, Riesling og Gewürztraminer. Svæðið hefur í gegnum aldirnar ýmist tilheyrt Þýskalandi eða Frakklandi og menningin hefur auðvitað litast af því, þar á meðal matargerð. Þar gera menn pylsur og reykja svínakjöt – og drekka auðvitað hvítvín með! Ég hefði því auðvitað átt að koma þessari færslu frá mér fyrir jólin til að benda lesendum á að velja Pinot Gris frá Alsace með hangikjötinu eða hamborgarhryggnum…

Willm Pinot Gris Réserve 2020 er fölgult á lit með örlítið gylltum blæ. Í nefinu eru perur, epli, hunang, sítrónur, límónur og steinefni. Vínið er örlítið sætt, með miðlungs sýru og miðlungs fyllingu. Þokkalegt eftirbragð með perum, eplum, sítrónum og steinefnum. 89 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr). Fer vel með hangikjöti og hamborgarhrygg, en einnig feitum eða þéttum fiski á borð við lax og skötusel.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (143 umsagnir þegar þetta er skrifað). Ég fann ekki aðrar umsagnir um þennan árgang, en fyrri árgangar hafa verið að fá 4 stjörnur hjá Þorra Hringssyni og Wine Enthusiast hefur gefið þeim 87-89 stig.

Athugið að í dag er það 2022-árgangurinn sem er í hillum Vínbúðanna.

Willm Pinot Gris Réserve 2020
Mjög góð kaup
Willm Pinot Gris Réserve 2020 fer vel með hangikjöti og hamborgarhrygg, en einnig feitum eða þéttum fiski á borð við lax og skötusel.
4
89 stig

Vinir á Facebook