Tbilvino Saperavi 2021

Vínhús Tbilvino er eitt það stærsta í Georgíu. Ársframleiðslan er um 7,5 milljónir flaskna og vínekrur fyrirtækisins ná yfir rúma 400 hektara. Saga Tbilvino hófst árið 1962. Georgía var þá hluti af Sovétríkjunum og miðstýringin allsráðandi, þar sem mun meiri áhersla var lögð á magn en gæði. Árið 1962 var stærsta víngerð Georgíu tekin í notkun og um leið varð Tbilvino til.

Líkt og hjá flestum öðrum vínhúsum í Georgíu hafði fall Sovétríkjanna mikil áhrif á Tbilvino. Vínhúsið þraukaði þó í krafti stærðarinnar, en árið 1999 urðu kaflaskil í sögu Tbilvino þegar bræðurnir Zurab og Giorgi Margvelashvili tóku við stjórn fyrirtækisins. Þeir innleiddu nútímalegri aðferðir með vestrænum áhrifum. Víngerðin var endurnýjuð árið 2008 með nýjustu tæki og útbúnað. Ítalskir vínsérfræðingar voru fengnir til ráðgjafar og gæði framleiðslunnar hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár.

Árið 2012 var svo tekin í notkun ný víngerð í Kvarerli, en þar var áherslan hins vegar lögð á hefðbundnar Georgískar aðferðir.

Í dag framleiðir Tbilvino 29 mismunandi vín og 3 tegundir af Chacha (sterkt vín í ætt við Grappa).

Vín dagsins

Vín dagsins er hreint Saperavi, gert úr þrúgum sem koma af vínekrum Tbilvino í Kakheti. Þrúgurnar eru handtíndar af vínviðnum, pressaðar og gerjaðar í stáltönkum. Að því loknu er þriðjungurinn settur í franskar eikartunnur í 1-2 mánuði. Vínið er svo blandað og sett á flöskur. Það fer ungt á markað og er ætlað að vera unglegt og ávaxtaríkt. Árið 2020 varð Tbilvino Saperavi 2018 fyrsta Georgíska vínið til að fá gullverðlaun á International Wine Challenge.

Tbilvino Saperavi 2021 hefur djúpan rúbínrauðan lit með fjólubláum blæ. Í nefinu eru svört kirsuber, bláber, brómber, leður, blek, kryddjurtir og vanilla. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru, ágæt tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er þétt, þó kannski aðeins stutt, þar sem kirsuber, brómber, bláber, leður og krydduð vanilla ráða för. 89 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr). Fer vel með grilluð lambi og svínakjöti, léttari villibráð og hörðum ostum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (264 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þetta vín fékk 94 stig og silfurverðlaun á Decanter World Award 2022.

Tbilvino Saperavi 2021
Mjög góð kaup
Tbilvino Saperavi 2021 fer vel með grilluð lambi og svínakjöti, léttari villibráð og hörðum ostum.
4
89 stig

Vinir á Facebook