Fjölskylda markgreifans af Griñon eru engin nýgræðingar þegar kemur að víngerð. Landareign þeirra í Dominio de Valdepusa í Castilla-La Mancha hefur verið í eigu fjölskyldunnar frá árinu 1292 og líklega hefur vínviður verið ræktaður þar enn lengur. Landareignin var sú fyrsta (ásamt Finca Elez) til að fá útnefninguna Vino de Pago, sem er efst í metorðastiga spænskrar víngerðar og aðeins úthlutað til landareigna sem stöðugt gefa af sér sérstök vín í hæstu gæðum. Samkvæmt reglum um Vindo de Pago þurfa allar þrúgur í vínunum að vera ræktaðar, gerjaðar og þroskaðar á landareigninni.
Eins og áður segir hefur Dominio de Valdepusa verið í eigu Markgreifans af Griñon frá árinu 1292. Árið 1974 var Cabernet Sauvignon gróðursettur á landareigninni (nokkuð óvenjulegt á þessum slóðum) og þetta var fyrsta vínekra í heimi þar sem dreypiáveita (drip irrigation) var tekin í notkun.
Carlos Falco, markgreifi af Griñon, var mikill hugsjónamaður í víngerð, og hann réð til sín Michel Rolland, þekktan vínráðgjafa frá Bordeaux. Að hans ráðum lét Carlos Falco gróðursetja Petit Verdot og Syrah, og var líklega fyrsti vínbóndinn á Spáni til að hefja ræktun á þessum þrúgum. Síðar bættust Graciano og Merlot við ræktunina. Vínekrurnar eru í u.þ.b. 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Sumrin á þessum slóðum eru þurr, heit og sólrík (sólskinsstundir eru um 3000 á ári), en veturinn kaldur.
Jarðvegurinn á þessum slóðum er nokkuð sérstakur. Efst er um 30-50 cm af leir, en þar undir er kalksteinn. Þetta þykir ákjósanlegt fyrir vínviðinn, þar sem bæði leir og kalksteinn halda vel í vatnið sem kemur með úrkomu vetrarins. Sumrin eru mjög þurr og þá koma þessir eiginleikar jarðvegsins sér vel fyrir vínviðinn, sem skýtur rótum sínum djúpt niður í jörðina til að ná í vatn og næringu.
Vín dagsins
Vín dagsins kom fyrst á markað árið 1982 og var þá fyrsta vínið sem var eingöngu úr Petit Verdot. Fram að því hafði Petit Verdot að mestu leyti verið notuð til íblöndunar í Bordeaux, þar sem þrúgan gefur vínunum góðan lit (hýðið inniheldur mikið af anthocyaninum sem er sterkt litarefni). Þrúgan þykir erfið í ræktun þar sem hún þolir illa raka, en hún nýtur sín vel í þurrum héruðum Spánar.
Marques de Grinon Petit Verdot 2018 hefur djúpan rúbínrauðan lit með fjólublárri slikju. Í nefinu eru svört kirsuber, vanilla, anís, plómur, sveskjur, eik, leður, mynta, tóbak, sólber, pipar og sedrusviður. Vínið er þurrt, með góða sýru, ríflega miðlungs tannín og góða fyllingu. Í munni eru svört kirsuber, vanilla, plómur, sveskjur, eik, leður, mynta, sólber og smá pipar. Eftirbragðið er silkimjúkt og heldur sér vel og lengi. 93 stig. Frábær kaup (6.290 kr). Steinliggur með góðri nautasteik, lambi og kálfakjöti.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (164 umsagnir þegar þetta er skrifað), en það fer lítið fyrir öðrum umsögnum um vínið.