Marani Mtsvane 2019

Mtsvane er sameiginlegt heiti nokkurra hvítra þrúga í Georgíu. Þrúgurnar eru skyldar, en erfðafræðilega ólíkar. Þrúgurnar eru einnig kenndar við héraðið sem þær koma frá – þekktastar eru Mtsvane Kakhuri og Goruli Mtsvane. Þessi afbrigði eru sennilega mjög gömul, en það er erfitt að meta gamlar heimildir um þrúguna, því Mtsvane þýðir einfaldlega „grænn“ og kannski eru þessar gömlu heimildir að fjalla um eitthvað allt annað?

Þrúgan gefur yfirleitt af sér frískleg vín með suðrænum ávaxtablæ. Stundum er öðrum afbrigðum á borð við Rkatsiteli og Aligoté blandað saman við Mtsvani. Þrúgan þykir henta ágætlega til víngerðar í Kvevri-kerjum.

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá vínhúsi Telavi í Kakheti. Það er gert úr þrúgunni Mtsvane sem vex á Kondoli-vínekrunum á vinstri bakka Alazani. Þegar þrúgurnar hafa verið tíndar og losaðar frá stilknum eru þær kældar niður í 4-6°C og geymdar í 8 klukkustundir áður en þær eru pressaðar. Safinn er svo gerjaður í stáltönkum við 14-15°C í u.þ.b. 1 mánuð.

Marani Mtsvane 2019 er fölgul á lit með smá grænni slikju. Í nefinu finnur maður blómlegan ilm af greipaldinum, sítrónum, ananas og perum. Í munni er vínið þurrt, með góða sýru og létta fyllingu. Eftirbragðið er miðlungslangt og þar má greina suðræna ávexti, græn epli, sítrónur og perur. 87 stig. Góð kaup (2.875 kr – ath. sérpöntun). Fer vel með salati, fiski og léttum pastaréttum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Notendur Vivino gefa þessu víni að jafnaði 3,6 stjörnur (of fáar umsagnir komnar fyrir þennan árgang).

Marani Mtsvane 2019
Góð kaup
Marani Mtsvane 2019 er létt og frísklegt hvítvín sem fer vel með salati, fiski og léttum pastaréttum.
4
87 stig

Vinir á Facebook