Koncho Mukuzani 2019

Mukuzani nefnist svæði innan Kakheti í Georgíu en Kakheti er stærsta og mikilvægasta vínhérað Georgíu. Mukuzani er skilgreint PDO (Protected Designation of Origin) og liggur meðfram ánni Alazani. Kakheti, líkt og Bordeaux, skiptist í hægri og vinstri bakka Alazani. Hægra megin eru skilgreindu vínsvæðin Tsinandali, Vazisubani, Akhasheni og Mukuzani. Vinstra megin eru svo Napareuli, Kvareli og Kindzmarauli.

Mukuzani hefur verið kallað flaggskip Georgískrar víngerðar. Þar er eingöngu ræktuð þrúgan Saperavi, sem að lokinni gerjun er jafnan látin þroskast í kákasískum eikartunnum.

Saperavi er mikilvægasta og mest ræktaða þrúgan í Georgíu. Vín úr Saperavi eru gerð bæði á hefðbundinn Georgískan hátt og á klassískan evrópskan hátt. Vínin geta verið þurr, hálfsæt, sæt eða styrkt. Sæt vín eru ætluð til neyslu þegar þau eru ung, en þurru vínin geta þolað nokkuð langa geymslu (10+ ár), séu þau vel gerð.

Vín dagsins

Vínhús Koncho var stofnað árið 2001 en starfsemin á sér þó eldri rætur. Vínkjallari Konchoshvili-fjölskyldunnar er frá árinu 1737 og Konchoshvili-fjölskyldan stundaði vínrækt og víngerð í um 250 ár. Vínekrur Koncho liggja við ána Duruji, sem rennur að lokum út í ána Alazani.

Koncho Mukuzani 2019 er hreint Saperavi, sem að lokinni gerjun var látið þroskast í kákasískum eikartunnum (framleiðandinn segir 1-2 ár). Vínið hefur djúpan rúbínrauðan lit og þægilega angan af kirsuberjum, plómum, sólberjum, krækiberjum, súkkulaði, eucalyptus og rósum. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með miðlung tannín og góða fyllingu. Eftirbragðið er þétt og heldur sér vel, og þar má finna svört kirsuber, plómur, sólber, krækiber, súkkulaði, tóbak og eucalyptus. 89 stig. Mjög góð kaup (3.399 kr). Fer vel með lambi, kálfakjöti, svínakjöti og léttari villibráð, ásamt hörðum ostum og sveppum. Sýnishorn frá innflytjanda.

Steingrímur í Vinoteki gefur þessu víni 4 stjörnur. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,0 stjörnur (152 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Koncho Mukuzani 2019
Mjög góð kaup
Koncho Mukuzani 2019 fer vel með lambi, kálfakjöti, svínakjöti og léttari villibráð, ásamt hörðum ostum og sveppum.
4
89 stig

Vinir á Facebook