Eins og kom fram í pistlinum mínum í gær þá eru áhrifavaldar vínheimsins nú í óðaönn að velja bestu vín ársins. Af þeim vínum sem rötuðu á topp 10 lista Wine Spectator, Wine Enthusiast og James Suckling þá er aðeins eitt vín fáanlegt í vínbúðum hérlendis. Reyndar fáum við vonandi einnig toppvín James Suckling þegar fram líða stundir – Laurent-Perrier Champagne Grand Siècle Grande Cuvée N.26 – því nú er blanda nr 25 í hillum vínbúðanna.
Í sjöunda sæti á topp 100 lista Wine Spectator er Marchesi Antinori Tenuta Tignanello Chianti Classico Riserva 2020. Þetta vín er okkur íslendingum vel kunnugt, því það hefur verið fáanlegt í vínbúðunum í mörg ár. Það eru reyndar nokkur ár síðan ég smakkaði það síðast og því fannst mér tilvalið að endurnýja kynnin.
Vín dagsins
Vín dagsins hefur lengi verið kallað „litla Tignanello“ og það er vel viðeigandi, því þrúgurnar koma af sömu vínekrum og þrúgurnar sem fara í hið goðsagnakennda vín Tignanello. Tignanello er eitt af upprunalegu ofur-Toscanavínunum og eitt af fáum vínum sem er á Wikipedia. Vínekrur Tignanello ná yfir 47 hektara og þar vaxa Sangiovese, Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc og Merlot.
Þó að vín dagsins sé kallað „litla Tignanello“ þá er þetta alls ekkert lítið vín. Vínið hefur jafnan fengið frábæra dóma hjá helstu vínskríbentum. Robert Parker hefur aðeins einu sinni gefið því minna en 90 stig á síðustu 25 árum!
Vínið er að stærstum hluta gert úr Sangiovese (um 90%), en í því er einnig að finna Merlot og Cabernet Franc. Vínið lá í 14 mánuði í frönskum eikartunnum.
Marchesi Antinori Tenuta Tignanello Chianti Classico Riserva 2020 hefur djúpan rúbínrauðan lit og angan af rauðum kirsuberjum, plómum, jarðarberjum, kaffi, kanil, fjólum, kakó, kókós, sedrusvið og smá reyk. Í munni eru nokkuð hrjúf tannín, góð sýra og góð fylling. Eftirbragðið er þétt og heldur sér lengi, og þar má finna tóbak, kirsuber, plómur, kaffi, kakó, sedrusvið, járn og smá reyk. 93 stig. Mjög góð kaup (5.999 kr). Fer vel með góðri steik (naut, lamb, svín, jafnvel villibráð), skinkum og bragðmiklum pastaréttum. Vínið hefur eflaust gott af því að þroskast nokkur ár til viðbótar, en annars er rétt að umhella því almennilega!
Wine Enthusiast gefur víninu 92 stig, James Suckling gefur 94 stig og Wine Spectator gefur því 95 stig, ásamt því að setja það í 7. sæti á lista sínum yfir bestu vín ársins.