Venta del Puerto No. 12 Seleccion Especial 2019

Bodega La Viña var stofnað árið 1945 í Valencia-héraði á Spáni, þegar 38 vínbændur stofnuðu samvinnufélag til að vinna úr uppskeru sinni. Á þessum tíma var hart í ári fyrir vínbændur, einkum þeirra sem ræktuðu vínvið utan þekktustu vínhéraðanna og fleiri samvinnufélög litu dagsins ljós á þessum árum. Valencia hefur ekki verið hátt skrifuð í spænskri víngerð, þó svo að víngerð eigi þar meiri en 1000 ára sögu. Lengst af hefur áherslan frekar verið lögð á magn umfram gæði, en það hefur verið að breytast undanfarin ár og sífellt fleiri gæðavín koma nú frá Valencia.

Víngerð í Valencia er fjölbreytt og því erfitt að setja vínin þar í tiltekinn flokk. Vínekrur í Valencia-héraði ná yfir rúma 13.000 hektara, sem má gróflega skipta í tvö svæði. Suðvestur af borginni Valencia er svæði sem kallast Clarino og nær suður til Alicante DO. Þar eru einkum gerð kröftug rauðvín úr Monstrell, Tempranillo, Cabernet Sauvignon og Merlot. Kröftug rauðvín úr Monastrell (í Frakklandi heitir þrúgan Mourvedre) hafa verið fremst í flokki vína sem hafa aukið hróður víngerðar í Valencia undanfarin ár.

Flestar vínekrurnar eru þó staðsettar lengra inni í landi. Það svæði skiptist í þrennt – Alto Turia, Valentino og Moscatel. Alto Turia fylgir Turia-ánni áleiðis að hásléttunni, og vínekrurnar eru í 700-1100 metra hæð yfir sjávarmáli. Hér eru einkum gerð þurr hvítvín úr Macabeo (í Rioja heitir þessi þrúga Viura) og Merseguera (þessi þrúga er nær eingöngu ræktuð í Valencia og Alicante). Í Valentino, sem er austur af Alto Turia, eru gerð bæði rauðvín (Garnacha, Tempranillo, Cabernet Sauvignon og Merlot) og hvítvín (Macabeo, Merseguera, Chardonnay og Semillon). Í Moscatel eru einkum gerð samnefnd sætvín – Moscatel de Valencia – úr þrúgunni Moscatel de Alejandro (þessi þrúga er ræktuð víða um heim og einkum notuð í sætvín).

Vín dagsins

Vín dagsins kemur frá samvinnufélaginu Bodega La Viña og flokkast sem þeirra grunnvín. Vínekrur Bodega La Viña, sem ná yfir heila 2.400 hektara, eru í Clarino sem, eins og áður segir, er suðvestur af borginni Valencia. Nafn vínsins vísar til þess að vínið var látið liggja í 12 mánuði á eikartunnu (amerísk eik), auk þess að hvíla í 6 mánuði á flösku áður en það fór í sölu. Vínið er gert úr þrúgunum Tempranillo (40%), Cabernet Sauvignon (40%), Merlot (10%) og Syrah (10%). Alls voru gerðar tæplega 160.000 flöskur af þessu víni.

Venta del Puerto No. 12 Seleccion Especial 2019

Venta del Puerto No. 12 Seleccion Especial 2019 hefur djúpan kirsuberjarauðan lit. Í nefinu er þétt og kröftug angan af kirsuberjum, vanillu, leðri, negul, plómum, pipar, eucalyptus, kókos og kryddum. Í munni er vínið þurrt, sýruríkt, með nokkuð rífleg tannín og góða fyllingu. Kryddað eftirbragðið heldur sér vel, og þar má finna leður, kókos, kirsuber, vanillu, negul, plómur, pipar og eik. 91 stig. Frábær kaup (2.990 kr). Þetta vín steinliggur með grilluðu ribeye, lambakjöti, pottréttum, spænskri skinku og ostum.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,1 stjörnu (524 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Venta del Puerto No. 12 Seleccion Especial 2019
Frábær kaup
Venta del Puerto No. 12 Seleccion Especial 2019 steinliggur með grilluðu ribeye, lambakjöti, pottréttum, spænskri skinku og ostum.
4.5
91 stig

Vinir á Facebook