Matarromera Prestigio 2017

Síðustu tvö vín sem ég fjallaði um komu bæði frá Ribera del Duero á Spáni. Ég ætla að halda mig áfram í Ribera del Duero en færi mig aðeins um set til Matarromera. Vínhús Matarromera var stofnað árið 1988 af Carlos Moro, víngerðarmanni frá Valladolid, sem er í næsta nágrenni við Ribera del Duero. Moro þessi hefur verið nokkuð duglegur að koma sér fyrir í helstu vínhéruðum Spánar og á vínhús í Toro, Rioja, Cigales og Ribero.

Vínhús Matarromera ræður yfir nokkrum vínekrum (um 160 hektarar) í Ribera del Duero, og framleiðir vín í nokkrum vörulínum. Inngangsvínið þeirra kallast Melior, en svo eru einnig gerð hefðbundin Crianza, Reserva og Gran Reserva. Toppvínin þeirra eru þó vín dagsins, Prestigio, og Pago-vínið Solanas. Þessi vín eru bara gerð í góðum árgöngum (sem hafa reyndar verið nokkuð margir undanfarinn áratug). Þá gerir Matarromera líka vínið Esencia, sem er blandað úr nokkrum topp-árgöngum, svipað og Vega Sicilia gerir með Unico Reserva Especial.

Vín dagsins.

Vín dagsins er eitt af flaggskipum Matarromera – Prestigio. Vínið fylgir ekki alveg þeim reglum sem gilda um víngerð í Ribera del Duero og flokkast því strangt til tekið sem borðvín, þó það endurspeglist ekki í verðinu. Vínið er aðeins gert í mjög góðum árgöngum (sem hafa, eins og áður segir, verið nokkuð margir undanfarinn áratug). Að lokinni gerjun er vínið fyrst látið liggja í 9 mánuði í tunnum úr franskri eik, og eftir það fær það aðra 9 mánuði í tunnum úr amerískri eik. Það er svo látið hvíla 2 ár í flöskum áður en það fer í sölu.

Matarromera Prestigio 2017 hefur djúpan kirsuberjarauðan lit og er aðeins farið að þroskast. Í nefinu er þétt angan af kirsuberjum, plómum, tóbaki, sedrusvið, kakó, leðri, vanillu, kaffi, negul og ristuðu brauði. Í munni er vínið þurrt, með þétt en mjúk tannín, ríflega miðlungssýru og góða fyllingu. Eftirbragðið er langt og mjúkt, og þar má finna kirsuber, plómur, súkkulaði, negul, tóbak, kaffi og eik. 96 stig. Frábært vín, en aðeins í dýrari kantinum (10.740 kr). Nýtur sín vel með nautakjöti, lambi, villibráð, hörðum ostum og súkkulaði. Vínið þolir eflaust 10-15 ár til viðbótar í vínkælinum. Fæst aðeins í vínbúðinni Heiðrúnu.

James Suckling gefur þessu víni 93 stig, Tim Atkin gefur því 90 stig og notendur Vivino gefa því 4,4 stjörnur (150 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Matarromera Prestigio 2017
Frábært vín
Matarromera Prestigio 2017 er frábært vín sem nýtur sín vel með nautakjöti, lambi, villibráð, hörðum ostum og súkkulaði.
5
96 stig

Vinir á Facebook