Marta Mate El Holgazán 2020

Um síðustu helgi sagði ég ykkur frá vínhúsi Marta Mate í Ribera del Duero á Spáni, nánar tiltekið frá samnefndu víni sem flestir vínskríbentar hafa verið að missa sig yfir (þar á meðal ég sjálfur). En það fæst líka annað vín frá þessari ágætu víngerð í Vínbúðunum. Líkt og flest vínhús þá er Marta Mate ekki bara að gera „ofur-vín“ því það komast víst ekki allar þrúgur í hæsta gæðaflokk. Þær þrúgur er þá hægt að nota í „einfaldari“ vín, þó að vín dagsins verði ekki endilega kallað „einfalt“.

Ein af vínekrum Marta Mate í Tubilla del Lago kallast „el hogazán“ – „Letinginn“. Vínekran er í 850 metra hæð yfir sjávarmáli og þar vex 25 ára vínviður í grýttum, leirkenndum jarðvegi. Líkt og á öðrum vínekrum Marta Mate eru þrúgurnar (100% Tempranillo) tíndar með handafli og safinn er látinn liggja á hratinu í 8 daga. Það þykir ekki langur tími í Ribera del Duoero, en lengri tími þýðir meiri litur og meiri tannín í víninu. Sem dæmi má nefna að Primordium, vínið sem kom Marta Mate á kortið, liggur í 2-3 vikur á hratinu. Að lokinni gerjun er vínið svo látið hvíla í 6 mánuði í stórum tunnum (300 og 600 lítra) úr franskri og amerískri eik.

Marta Mate El Holgazan 2020

Marta Mate El Holgazán 2020 hefur meðaldjúpan fjólurauðan lit og er nokkuð unglegt að sjá. Í nefinu er mikill ávöxtur, hindber, svört kirsuber, fjólur, krydd, lakkrís, mild eik og steinefni. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru, nokkuð þétt og hrjúf tannín, og góða fyllingu. Kirsuber, hindber, fjólur, lakkrís og steinefni ráða för í smá krydduðu eftirbragðinu. 91 stig. Frábær kaup (2.906 kr). Þetta vín steinliggur með grilluð lambakjöti, en einnig nauti, svíni og léttari villibráð.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (96 umsagnir þegar þetta er skrifað). Tim Atkin gefur því 92 stig, James Suckling gefur 91 stig og Steingrímur í Vinoteki gefur því 4 stjörnur.

Marta Mate El Holgazán 2020
Frábær kaup!
Marta Mate El Holgazán 2020 steinliggur með grilluð lambakjöti, en einnig nauti, svíni og léttari villibráð.
4
91 stig

Vinir á Facebook