Í gær sagði ég ykkur frá vínhúsinu El Enemgio, sem Adrianna Catena og Alejandro Vigil stofnuðu. Adrianna kemur af mikilli víngerðarfjölskyldu – Catena-fjölskyldunni í Argentínu – og Alejandro hefur séð um víngerðina hjá Catena í rúm 20 ár. Upphaflega var þetta verkefni þeirra kallað Aleanna, en fékk síðan nafnið El Enemgio.
Eins og ég nefndi í gær eru bestu vínekrur El Enemigo staðsettar í Gualtallary í Uco-dalnum. Gualtallary er afmarkað svæði innan Tupungato, sem er eitt besta svæðið í Mendoza. Vínekrurnar eru í um 1450-1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Rauðvínin eru flest einnar-ekru vín úr Cabernet Franc eða Bonarda, en líkt og flest argentínsk vínhús þá gerir El Enemigo einnig rauðvín úr Malbec.
Vín dagsins
Vín dagsins er að mestu gert úr þrúgum frá Gualtallary, en hluti þeirra kemur þó af vínekrum rétt utan við Gualtallary og teljast því koma frá Tupungato. Þetta er að stærstum hluta Malbec (92%) en í það er líka sett smávegis (8%) af Cabernet Franc. Árið 2018 þótti nokkuð gott ár í Mendoza hvað veður og vaxtarskilyrði varðar, enda kalla heimamenn það “El Año Mendocino” – Mendoza-árið. Árið 2017 var víst í kaldara lagi og uppskeran lítil (það ár var kallað “El Año Bordelés” – Bordeaux-árið) og 2016 var bæði kalt og blautt (“El Año Bourguignon” – Búrgúndarárið). Vínið var látið gerjast af villtum gersveppum (þeir finnast oft á hýði þrúganna – notkun þeirra getur stundum verið áhættusöm því þeir geta haft áhrif á bragðið). Að lokinni gerjun var vínið geymt í 15 mánuði í stórum eikarámum sem eru um 100 ára gamlar (og gefa þannig mjög lítið eikarbragð en hleypa örlitlu súrefni að víninu). Alls voru gerðar um 28.000 flöskur af þessu víni.
El Enemigo Malbec 2018 hefur dökkan og djúprauðan lit. Í nefinu er nokkuð blómleg angan af sólberjum, plómum, leðri, kirsuberjum, bláberjum, fjólum, súkkulaði, svörtum pipar og smá eik. Í munni er vínið þurrt, tannínin þétt en sæmilega mjúk, og sýran er nokkuð rífleg. Vínið hefur góða fyllingu og er í góðu jafnvægi. Í eftirbragðinu eru sólber, brómber, þroskuð kirsuber, pipar, bláber og súkkulaði. 92 stig. Mjög góð kaup (3.990 kr – fæst aðeins í vefversluninni finvin.is). Drekkið á næstu 2-3 árum, gjarnan með góðri steik (naut, lamb, villibráð).
Wine Spectator gefur þessu víni 88 stig. Robert Parker gefur því 93 stig. Tim Atkin gefur einnig 93 stig og Wine Enthusiast gefur því 90 stig. Notendur Vivino gefa því 4,3 stjörnur (7.690 umsagnir þegar þetta er skrifað).