Það er orðið nokkuð langt síðan ég fjallaði síðast um Chardonnay-vínið úr Marques de Casa Concha-línu Chileanska vínrisans Concha y Toro – nánar tiltekið rúm 3 ár – og því vel tímabært að kíkja aftur á þetta vín. Concha y Toro eru okkur Íslendingum að góðu kunnir, enda hafa vínin þeirra verið fáanleg í hillum vínbúðanna í áraraðir. Sunrise, Casillero del Diablo, Marques de Casa Concha og Terrunyo eru nöfn sem flestir íslenskir vínunnendur ættu að kannast við.
Concha y Toro eru eitt stærsta víngerðarfyrirtæki í heimi og um leið eitt þekktasta vörumerkið þegar vín eru annars vegar. Sagan hófst árið 1883 þegar Don Melchor de Santiago Concha y Toro og eiginkona hans Emiliana Subercaseaux gróðursettu vínvið á landareign sinni í Maipo-dalnum í Chile. Melchor flutti inn vínvið frá Frakklandi og fylgdi frönskum venjum í víngerð sinni. Starfsemin gekk vel og í dag er Concha y Toro, eins og áður segir, eitt af stærstu víngerðarfyrirtækjum heims. Concha y Toro á fleiri vínhús sem sum eru okkur vel kunn – Viña Emiliana og Cono Sur í Chile, Trivento í Argentínu, Fetzer í Ameríku – auk þess sem Concha y Toro eiga Viña Almaviva í samvinnu við Château Mouton Rothschild. Vínekrur Concha y Toro ná yfir rúma 10.000 hektara (það eru nærri fjórum sinnum meira en allt norður-Rhône héraðið og þrisvar sinnum meira en Châteauneuf-du-Pape!) og ársframleiðslan nálgast 200 milljón flöskur…
Vín dagsins
Vín dagsins kemur af vínekrum Concha y Toro í Limarí. Jarðvegurinn þar er kalkríkur leir og og þarna rignir frekar lítið. Árið 2021 var svalara og blautara en í meðalárferði, en það virðist þó hafa gefið af sér nokkuð góð hvítvín, ef marka má þá víndóma sem fulltrúi Robert Parker birti um hvítvín frá Limari þetta árið. Vínið sem hér um ræðir er 100% Chardonnay sem var látið gerjast í eikartönkum. Að lokinni gerjun lá vínið í 1 ár í frönskum eikartunnum (18% nýjar tunnur). Þá var það kaldhreinsað (til að losna við vínsýrukristalla) og síað fyrir átöppun. Alls voru framleiddar um 192.000 flöskur af þessum árgangi.
Concha y Toro Marques de Casa Concha Chardonnay 2021 hefur sítrónugulan lit og blómlega angan af sítrónum, perum, eplum, ananas, vanillu, franskri eik, ferskjum og suðrænum ávöxtum. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungssýru og gott jafnvægi. Í munni er frísklegt og gott eftirbragð, þar sem finna má perur, steinefni, epli, ananas, heslihnetur, ferskjur, ananas og sítrónur. 90 stig. Mjög góð kaup (3.499 kr). Fer vel með sjávarréttum hvers konar, pastaréttum í rjómasósum, og með ljósu fuglakjöti. Sýnishorn frá innflytjanda.
Robert Parker gefur þessu víni 92 stig og Tim Atkin gefur því 93 stig. Notendur Vivino gefa því 4,0 stjörnur (86 umsagnir þegar þetta er skrifað).