Laurent-Perrier Brut Champagne Cuvée Rosé

Laurent-Perrier Brut Champagne Cuvée Rosé

Vínhús Laurent-Perrier var stofnað af André Michel Pierlot árið 1812. Pierlot var upphaflega vínkaupmaður en í þorpinu Tours-sur-Marne fann hann vínekrur sem hann keypti og fór að gera eigin vín. Alphonse sonur hans tók við af föður sínum, en sjálfur átti Alphonse engin börn og erfði kjallarameistara sinn, Eugène Laurent, að fyrirtækinu. Eugène lést af slysförum árið 1887 og þá tók ekkja hans, Mathilde Emilie Perrier við rekstrinum. Hún breytti nafni vínhússins í Veuve Laurent-Perrier („Ekkjan Laurent-Perrier“).

Mathilde þótti slyng í viðskiptum en heiðarleg. Þegar hún tók við rekstrinum var Vínhúsið afar skuldsett en henni tókst að koma rekstrinum á réttan kjöl. Vínhúsið dafnaði og fjárhagurinn vænkaðist. Ein umdeildasta, en líklega best heppnaðasta ákvörðun Laurent-Perrier var að feta í fótspor Louise Pommery og búa til “Grand Vin sans Sucre” en fram að því voru kampavín nær undantekningalaust sæt. Ósykruðu (þurru) kampavínin féllu vel í breska neytendur og ósykraða kampavín Laurent-Perrier var einmitt hugsað fyrir breskan markað.

Heimskreppa millistríðsáranna fór illa með vínhús Laurent-Perrier og það var að lokuð selt árið 1939. Kaupandinn var Marie-Louise de Nonancourt, en það var svo sonur hennar Bernard de Nonancourt sem endurreisti fyrirtækið og kom því á þann stall í vínheiminum sem það er á í dag. Þegar Marie-Louise de Nonancourt keypti Laurent-Perrier var ársframleiðslan um 80.000 flöskur á ári en í dag er Laurent-Perrier eitt af stærstu kampavínshúsunum. Bernard var félagi í frönsku andspyrnuhreyfingunni í seinni heimsstyrjöldinni og sennilega við hæfi að það var hann sem fann (eða opnaði) falinn vínkjallara Hitlers í Kehlsteinhaus í Bæjaralandi, en þar voru víst geymdar um 500.000 vínflöskur, flestar þeirra líklega stolnar.

Vín dagsins

Vín dagsins er rosé kampavín frá Laurent-Perrier. Þrúgurnar koma af vínekrum frá 10 þorpum í Montagne de Reims og Côte de Bouzy. Hér er um að ræða 100% Pinot Noir, sem fékk að liggja í rúma 2 sólarhringa á hýðinu áður en safinn var pressaður og gerjaður. Vínið var svo blandað og látið liggja í 5 ár á flöskum áður en það var sett í sölu. Þó að stærstu hluti vínsins tilheyri tilteknum árgangi þá er þetta ekki árgangsvín, því í það er blandað eldri vínum til að vínið haldist eins frá ári til árs (það á við um flest kampavín, að árgangsvínum undanskildum).

Laurent-Perrier Brut Champagne Cuvée Rosé

Laurent-Perrier Brut Champagne Cuvée Rosé er laxableikt á lit, með nokkuð þétta angan af jarðarberjum, hindberjum, trönuberjum, ristuðu brioche-brauði, möndlum og eplum. Í munni er góð sýra og miðlungs fylling. Þétt og rjómakennt eftirbragð með jarðarberjum, hindberjum, trönuberjum, ristuðu brioche-brauði, appelsínuberki, eplum og steinefnum, en þarna vottar líka fyrir kryddi og möndlum. 93 stig. Góð kaup en tekur nokkuð í veskið (10.979 kr). Nýtur sín vel með nánast hvaða mat sem er, en er sennilega best eitt og sér.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4,4 stjörnur (36.729 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine Spectator gefur þessu víni 93 stig og Robert Parker gefur því 92 stig. Wine Enthusiast gefur því 94 stig. Steingrímur í Vinotekinu gefur 5 stjörnur.

Laurent-Perrier Brut Champagne Cuvée Rosé
Laurent-Perrier Brut Champagne Cuvée Rosé
Góð kaup
Laurent-Perrier Brut Champagne Cuvée Rosé nýtur sín vel með nánast hvaða mat sem er, en er sennilega best eitt og sér.
4.5
93 stig

Vinir á Facebook