Þegar ítölsk rauðvín eru til umræðu hugsa væntanlega margir fyrst til Toscana-héraðs – Chianti, Chianti Classico og Super-Toscana vín. Bestu Toscana-vínin koma þó líklega frá þorpinu Montalcino og þekktust eru auðvitað Brunello di Montalcino. Nafnið Brunello vísar til þrúgunnar, sem heimamenn kalla Brunello. Síðar kom í ljós að þessi þrúga er afbrigði af sömu þrúgu og víða má finna í Toscana – Sangiovese. Nafnið hefur þó haldist, enda samofið vínunum frá Montalcino.
Um Brunello di Montalcino gilda strangar kröfur. Vínin þurfa að vera úr 100% Sangiovese og þau þarf að geyma í a.m.k. 4 ár (riserva í 5 ár) áður en þau eru sett í sölu. Af þessum 4 árum þurfa vínin að vera minnst 2 ár í eikartunnu og þau þurfa að hafa verið í minnst 4 mánuði á flösku áður en heimilt er að selja þau.
Rosso di Montalcino hlaut eigin skilgreiningu árið 1984. Tilgangurinn var að auðvelda vínbændum að nýta ungan vínvið, þar sem þrúgurnar voru ekki alveg nógu góðar til notkunar í Brunello, og einnig til að geta selt vín sem fyrirséð var að yrðu ekki nógu góð til að vera Brunello (bændur geta þá „gengisfellt“ vínin og selt sem Rosso). Þá skapaði þetta líka tekjur fyrir vínbændur á meðan beðið var eftir að Brunello-vínin næðu tilsettum þroska og aldri. Svipað fyrirkomulag var tekið upp í þorpinu Montepulciano í Toscana, sem er þekkt fyrir Vino Nobile de Montepulciano.
Rosso di Montalcino þurfa aðeins að vera 6 mánuði í eikartunnu, og þau má selja þegar þau eru orðin ársgömul. Líkt og Brunello, þá eru Rosso di Montalcino gerð út 100% Sangiovese, en þau eru almennt frísklegri og léttari en Brunello (enda mun yngri vín).
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Vínhúsi Casisano, ungu vínhúsi sem nú er í eigu Tommasi-fjölskyldunnar. Þrúgurnar koma af ungum vínvið (gróðursettur 2015) sem er ekki orðinn nógu þroskaður til að gefa af sér þrúgur fyrir Brunello. Vínið fékk að liggja í 8 mánuði á tunnum úr slavónskri eik, og svo í 6 mánuði á flöskum áður en það fór á markað.
Casisano Rosso di Montalcino 2020 er múrsteinsrautt á lit, með miðlungs dýpt. Í nefinu eru kirsuber, leður, sveppir, svartur pipar, plómur lakkrís og smá mentól. Í munni er vínið þurrt, með ríflega miðlungs sýru, miðlungs tannín og ágæta fyllingu. Leður, kirsuber, plómur, svartur pipar og eik í ágætu eftirbragðinu. 89 stig. Góð kaup (3.499 kr). Fer vel með grilluðu lambi, nauti og svíni, einnig pastaréttum með kjötsösu, ítalskri skinku og ostum.
Wine Enthusiast gefur þessu víni 86 stig en Falstaff gefur því 91 stig. Notendur Vivino gefa því 3,7 stjörnur (137 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 87 stig.