Vínhús Vietti tók til starfa fyrir tæpum 150 árum, þegar Carlo Vietti hóf víngerð í miðaldaþorpinu Castiglione Falletto. Víngerðin er enn á sama stað en vínhúsið er ekki lengur í eigu Vietti-fjölskyldunar, því hin þýska Krause-fjölskylda keypti fyrirtækið árið 2016. Luca Vietti hélt þó enn um stjórnartaumana þar til fyrr á þessu ári að hann yfirgaf fyrirtækið sem nú er alfarið í umsjá Krause-fjölskyldunnar. Krause-fjölskyldan á einnig vínhús Enrico Serafino, sem er eitt af eldri vínhúsum Piemonte, og svo á fjölskyldan knattspyrnufélagið Parma, ásamt því að eiga ýmis önnur fyrirtæki í Bandaríkjunum og á Ítalíu.
Asti-héraðið er staðsett í Piemonte á Norður-Ítalíu, suður af borginni Tórínó. Barbera d’Asti var skilgreint sem DOC árið 1970 og árið 2008 var það fært upp í DOCG flokk. Samkvæmt DOCG-reglunum þarf Barbera d’Asti að innihalda minnst 90% Barbera-þrúgur, en heimilt er að nota allt að 10% af þrúgunum Freisa, Grignolino eða Dolcetto. Reglurnar kveða einnig á um að vínin skuli hafa a.m.k. 11,5% áfengisinihald.
Frá árinu 2000 hefur verið hægt að búa til Barbera d’Asti Superiore. Þau vín geta komið frá þorpunum Nizza, Tinella og Colli Astiani og þurfa að hafa fengið a.m.k. 14 mánaða geymslu, þar af 6 mánuði í tunnum úr eik eða kastaníutrjám. Þá þurfa vínin að hafa a.m.k. 12,5% áfengisinnihald. Þessi vín geta geymst mun lengur en venjuleg Barbera d’Asti, jafnvel í allt að 15-20 ár.
Árið 2014 fékk Nizza DOCG-skilgreiningu og framleiðendur þar geta valið um að kalla vín sín Barbera d’Asti Superiore Nizza eða einfaldlega Nizza. Þessi vín þurfa að vera úr 100% Barbera og þurfa að fá a.m.k. 18 mánaða geymslu, þar af 6 mánuði í eikartunnum, og þau þurfa að hafa minnst 13% áfengisinnihald.
Vín dagsins
Vín dagsins er gert úr 100% Barbera, sem koma annars vegar af gömlum vínvið á La Crena-vínekrunni, og hins vegar af vínekrum í Nizza. Safinn var látinn gerjast í stáltönkum og að því loknu var það geymt bæði á eikartunnum og í stáltönkum í 12 mánuði. Alls voru gerðar um 35.000 flöskur af þessu víni. Áfengismagnið er um 15%.
Vietti Barbera d’Asti Tre Vigne 2020 hefur djúpan, rúbínrauðan lit og angan af kirsuberjum, hindberjum, trönuberjum, lavender, rósum, leðri, plómum, brómberjum, anís, kanil og pipar. Í munni er vínið þurrt, með miðlungs tannín og ríflega miðlungs sýru. Jafnvægið er gott, og í eftirbragðinu finnur maður leður, brómber, sólber, vanillu, kakó, kirsuber, plómur og hindber. 91 stig. Mjög góð kaup (3.699 kr). Leyfið því að anda aðeins (umhellið gjarnan) og njótið svo með grilluðum kjúklingi, svínakjöti, kálfakjöti, pastaréttum, grilluðu grænmeti eða pottréttum.
Robert Parker gefur þessu víni 88 stig og notendur Vivino gefa víninu 4,0 stjörnur (1119 umsagnir þegar þetta er skrifað). Steingrímur í Vinotek gefur því 4,5 stjörnur.